135. löggjafarþing — 48. fundur,  16. jan. 2008.

tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi.

322. mál
[15:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi vil ég segja þetta:

Í fyrsta lagi. Tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi er í samgönguáætlun 2008–2010 með 2.500 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt sérstakri fjáröflun sem getur verið með ýmsum hætti en tekin verður ákvörðun um hana með framlagningu viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 á vorþingi eða endurskoðaðri áætlun 2009–2012.

Í öðru lagi. Vegagerðin er með í undirbúningi tillögur að skipulagi fyrir Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Umhverfismat framkvæmdarinnar liggur ekki fyrir og verkhönnun getur ekki hafist fyrr en þessum þáttum er lokið. Ekki liggur fyrir hver heildarkostnaður gæti orðið og framkvæmdatími liggur heldur ekki fyrir.

Í þriðja lagi. Eins og fram kom í svari við fyrstu spurningu minni eru 2.500 millj. kr. til verksins á samgönguáætlun 2008–2010 og eins og áður hefur verið sagt við framlagningu viðauka við samgönguáætlun 2007–2010 eða við endurskoðun samgönguáætlunar 2009–2012 mun skýrast nánar hvernig frekari fjármögnun verður háttað.

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður gat um er hér um þrjár spurningar að ræða og hálfgerðar raðspurningar og þar sem hv. þingmaður spyr hvernig þetta verði fjármagnað langar mig til að spyrja hv. þingmann, sem ræður miklu um samgöngumál, hvaða leið hann vill fara gagnvart sérstöku fjáröfluninni. Er hann veggjaldamaður eða hvað? Vill hann fara þá leið sem andlegur leiðtogi hans núna, Steingrímur J. Sigfússon, vildi fara þegar hann var samgönguráðherra? Var ekki svo að hv. þingmaður var þá aðstoðarmaður umrædds ráðherra sem er frumkvöðull að því að taka upp veggjöld á Íslandi, þ.e. með Hvalfjarðargöngum?