135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

komugjöld í heilsugæslunni.

[11:04]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka heilbrigðisráðherra svör hans svo langt sem þau ná. Ég get ekki tekið undir þá túlkun að fyrst og fremst sé verið að flytja útgjöldin frá börnum og unglingum yfir á fullgreiðendur, fyrir því liggja engir útreikningar. Hækkunin er sú sama á báða hópa og það er það sem máli skiptir. Það er alveg rétt að fyrir bæði mig og hæstv. heilbrigðisráðherra virðist það ekki hátt gjald að borga 500 kr. fyrir að koma inn á heilsugæslustofnun en fyrir þá sem litla peninga eiga er 43% hækkun mikil hækkun jafnvel þó að heildargjaldið sé ekki nema 500 kr. Við getum verið að tala um allmargar heimsóknir í hverjum mánuði og þá telur þetta.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er það að flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á velferðarsviðinu frá því að hún tók við völdum á þessu vori hafa miðað að því að hjálpa einhverjum öðrum (Forseti hringir.) en þeim sem bágast standa og verst eiga í þessu kerfi og það sama má segja um þessa ráðstöfun.