135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[13:47]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa færi á að hægt sé að ræða beint við hann um þessi mál. Ég spurði hvort það væri einhvers konar skilyrði af hálfu hæstv. ráðherra að því yrði beint til fulltrúa stjórnarsinna í allsherjarnefnd að klára frumvarpið um almannavarnir, hvort það gæti þess vegna beðið þó að þetta frumvarp yrði afgreitt. Ég spurði reyndar líka hæstv. ráðherra hvort enn væri meiningarmunur á milli aðila um loftrýmiseftirlitið, hvort það væri enn svo að hæstv. ráðherra teldi að það ætti með einhverjum hætti að fara inn í Skógarhlíðina.

Ég vil líka gjarnan ítreka spurningu mína varðandi öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli af því að ráðherrann — ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra — dró það sérstaklega út úr sem verkefni sem ætti að semja um, það var svona ákall eða ósk um það. Er einhver meiningarmunur þar á milli aðila eða er búið að semja um það fyrir fram að gera það þannig?