135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:28]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir varnaðarorð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar varðandi þann þátt er lýtur að fyrirsjáanlegum auknum siglingum við Grænland. Það er þróun sem menn sjá fram á að muni eiga sér stað og það þarf að bregðast við því á margan hátt og umrædd tillaga felur í sér að unnið verði að því verkefni.

Hins vegar gera sér kannski ekki margir grein fyrir að á Grænlandi eru nánast ekki til björgunarsveitir eða björgunarfélög, það er ekkert í líkingu við það sem er á Íslandi. Það er kannski það verk sem við höfum mest að vinnu í þessari stöðu sem stóri bróðirinn í Vestnorræna samstarfinu.

Það liggur fyrir að það þarf að taka upp hanskann í þessum efnum. Íslendingar hafa svolítið þreifað fyrir sér á undanförnum árum í að koma á samstarfi og uppbyggingu í þessum efnum á Grænlandi en það er þungt fyrir og það er þungt fyrir vegna þess að danska kerfið spilar þar inn í að verulegu leyti. Það er á móti því. Þetta er bara sannleikurinn í málinu. Við þurfum þess vegna að fara styttri leiðina, við þurfum að fara grasrótarleiðina, fara þetta sem nágrannar, vinir og félagar. Þannig þurfum við að ná árangri í að byggja þetta upp. Síðan kemur að stóru þáttunum sem lúta að hvort sem er Noregi, Rússlandi, Hjaltlandseyjum, Englandi eða Skotlandi. En við þurfum að byggja grunninn, byggja heimavöllinn upp og sinna okkar næstu grönnum í þessum efnum þar sem við höfum verið skrefinu á undan í uppbyggingu í þessum málum. En þetta mun koma til frekari umræðu í öðrum tillögum fulltrúa Vestnorræna ráðsins á hv. Alþingi.