135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í vestnorrænu löndunum.

277. mál
[17:58]
Hlusta

Flm. (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Frú forseti. Þá er komið að fjórða máli, ef svo má að orði komast, þingmannanefndar Vestnorræna ráðsins og það fjallar, eins og hið fyrsta sem við lögðum fram, um björgunarmál en á annan hátt. Fyrri tillagan um björgunarmál var um aukið samstarf þjóðanna á Norður-Atlantshafi um björgunarmál og er þá verið að tala um allar þjóðir sem liggja að Norður-Atlantshafi. Þessi tillaga er afmarkaðri og meira inn á við, um innra samstarf þessara þriggja landa. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að stuðla að og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í löndunum þremur.“

Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson og Jón Gunnarsson.

Vestnorræna ráðið hefur frá upphafi unnið að því að styrkja tengslin og auka samstarf milli stjórnvalda Vestur-Norðurlandanna, íbúa þeirra, atvinnu- og menningarlífs. Á síðasta ársfundi samþykkti ráðið ályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnir landanna að styrkja samstarf björgunarsveita og slysavarnafélaga. Ástæðan er sú að Vestur-Norðurlöndin geta miðlað miklu hvert til annars í þeim efnum þar sem þau eiga margt sameiginlegt hvað varðar náttúru og veðurfar, landfræðilegar aðstæður og búsetu. Veður geta orðið válynd, það þekkjum við og löndin eru harðbýl og strjálbýl með fjölda afskekktra og fámennra byggðarlaga þar sem samgöngur eru erfiðar auk víðáttumikils hálendis. Auk þess eru þau öll við Norður-Atlantshafið og mikil sjósókn er stunduð í þeim öllum.

Löndin eiga því við sambærilegar aðstæður að glíma sem kallar á svipaðan viðbúnað til að bregðast við slysum og náttúruhamförum. Hins vegar er viðbúnaður til að fyrirbyggja og bregðast við slysum á sjó og landi mislangt á veg kominn í löndunum þremur. Það er því samhljóða álit Vestnorræna ráðsins að auka samstarfið milli slysavarnafélaga og björgunarsveita. Ef það yrði aukið væri það hagur allra, enda ljóst að löndin geta lært mikið hvert af öðru. Markmið slíks samstarfs yrði einkum að miðla þekkingu og reynslu á sviði slysavarna og björgunar, koma á samvinnu um uppbyggingu slysavarnafélaga og björgunarsveita sem byggist á kerfi sjálfboðaliða, þjálfun og útgáfu fræðsluefnis. Áhersla er lögð á að frumkvæði komi frá slysavarnafélögunum og björgunarsveitunum en hins vegar að stjórnvöld veiti þeim nauðsynlegan stuðning til frekari samvinnu.

Herra forseti. Ég óska eftir því að tillagan fái þinglega afgreiðslu og legg til að henni verði vísað til utanríkismálanefndar.