135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

framboð Íslands til öryggisráðsins.

[15:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki orðið var við þessa miklu stefnubreytingu í utanríkismálum sem hv. þingmaður Ásta R. Jóhannesdóttir gumar hér af. Ef eitthvað er þá eru hernaðaráherslur meiri nú en áður eftir innkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn.

Það er nokkuð um liðið frá því að fyrst var farið að ræða og undirbúa framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eins og hér hefur komið fram hafa sjónarmið verið mismunandi innan flestra stjórnmálaflokka á þingi. Ég fyrir mitt leyti taldi og tel enn að við eigum að leita annarra leiða fyrir Íslendinga en þessarar til að leggja okkar fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég hef verið talsmaður þess að við verðum þeim peningum sem við látum renna til undirbúnings framboðsins og fyrirhugað er að gera, ef við náum árangri, til verkefna á borð við rannsóknir á sjávarbotninum og lífríki sjávarins. Þetta gerir tvennt í senn, við látum gott af okkur leiða og við eflum íslenska vísindastarfsemi. Þetta sjónarmið varð hins vegar ekki ofan á. Við höfum aftur á móti orðið vitni að hverri heimsreisunni á fætur annarri. Stórar sveitir úr utanríkisráðuneytinu með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar, fyrst hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson, síðan hæstv. ráðherra Geir H. Haarde og nú hæstv. ráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir. Þau eru búin að fara um Asíu, Afríku, Evrópu og Ameríku og þetta hefur að sjálfsögðu kostað mikla peninga. Það væri fróðlegt að fá samantekt á því hvað þessi áróður hefur kostað íslenska skattborgara.

Að lokum, hæstv. forseti, ef við náum árangri þá er verkefnið að sjálfsögðu, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, benti á að breyta áherslum í utanríkisstefnu Íslendinga. Hæstv. ráðherra talaði um (Forseti hringir.) mannöryggi, að smáar þjóðir væru vel til þess fallnar að gæta að mannöryggi í heiminum. Ekki reyndist hin viljuga ríkisstjórn sem hér sat á undangengnum árum rísa undir þeirri ábyrgð.