135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[17:42]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Trillukarl sem er að veiða með sjálfvirkum handfærarúllum er borinn saman við menn með sjóstöng, að það sé verið að mismuna. Hv. þm. Karl V. Matthíasson var að taka undir viðhorf hv. þm. Herdísar Þórðardóttur. En hann gleymir því að það var verið að mismuna því árið 1984 fengu sumir aðgang að auðlindinni, fengu að nýta og fengu kvóta úthlutað ókeypis sem þeir hafa getað veðsett, leigt eða selt varanlegri sölu. Þar er mismunun. Það sem menn gera núna ef þeir samþykkja þetta frumvarp þá eru þeir að búa til hærri og meiri skaðabótakröfur á íslenska ríkið og það er ábyrgðarleysi af mönnum að ætla að keyra þetta frumvarp í gegn. Það er ábyrgðarleysi að halda að þeir komist upp með það að mismuna Jóni og séra Jóni. Um það snýst þetta. Skaðabæturnar verða hærri en ella. Hv. þm. Karl V. Matthíasson sem tekur undir viðhorf hv. þm. Herdísar Þórðardóttur er að boða að það sé bara allt í lagi, að ríkið geti tekið þetta á sig.

Sjóstangaveiðar eru atvinnugrein sem hefur náttúrlega verið stunduð á Íslandi í 30, 40 ár, en í litlum mæli. Núna erum við farnir að gera þetta og vonandi verður þetta í framtíðinni alvöruatvinnugrein og vonandi geta margir haft atvinnu af þessu í fjóra, fimm mánuði á ári. Það er auðvitað bara gleðilegt og þá á ekki að leggja stein í götu (Forseti hringir.) svona atvinnugreinar.