135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[18:14]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Magnússon sagði áðan að ég væri að vinna gegn kjördæmi mínu með því að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið og segja að ég hefði fullan skilning á því að það væri lagt fram. (Gripið fram í: Auðvitað.) Ég mótmæli þeim orðum. Ég sagði í ræðu minni áðan að til Íslands kæmu fleiri hundruð ferðamenn til að veiða í laxveiðiám, veiða hreindýr og sjálfsagt ýmislegt annað og borgi fyrir það með mikilli gleði fleiri hundruð þúsundir króna, jafnvel fyrir einn dag í einni á fyrir að veiða einn fisk.

Ég er ekki að réttlæta kvótakerfið, ég er alls ekki að segja það, ekki má skilja orð mín þannig. Ég er bara að segja að í því kerfi sem við höfum núna — við getum hugsað okkur bát sem er að landa einu tonni af fiski sem veiddur var á línu, annar bátur landar öðru tonni sem veitt var á sjóstöng með ferðamönnum, eiga þeir ekki að sitja við sama borð, eiga ekki að gilda um þá sömu lög og sömu reglur? Ég er hræddur um að trillukarlar yrðu ekki sáttir við það að allt í einu kæmi hingað hundrað báta floti sem gæti verið að veiða á sjóstöng eins og mönnum sýndist — það eru öflug veiðarfæri — og gætu veitt utan við lög og reglur, verið í frjálsu kerfi meðan hinir eru það alls ekki. Það er það sem ég er að tala um.

Ég hef engar áhyggjur af því að þó ferðamenn greiði vel fyrir (Forseti hringir.) að fá að veiða hérna dragi það úr vilja þeirra til að koma hingað. (Gripið fram í: Reynslan sýnir annað.)