135. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

272. mál
[19:17]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er engin spurning að þetta frumvarp er hugsað þannig þeir sem eiga kvóta munu hagnast mest á því. Þeir eiga að geta leigt þeim sem eru kvótalausir þorsk fyrir 200 kr. kílóið. Það mun styrkja þá. Það mun íþyngja þeim sem eru kvótalausir og vilja reyna að bjarga sér með einhverjum hætti.

Þið, ágætu stjórnarsinnar, sem ætluðu að berja frumvarpið í gegn hafið ekki svarað því: Þarf réttindi á þessa báta eða ekki? Þarf skipstjórnarréttindi eða vélstjórnarréttindi? Ætlið þið að veita undanþágu frá því að menn geti róið á bátunum án þess að kunna nokkuð til í siglingafræði eða vélfræði?

Árið 1984, þegar kvótakerfið var sett á, var byrjað að brjóta mannréttindi, eins og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur staðfest. Þá var byrjað að úthluta séra Jóni en venjulegi Jón fékk ekki. Séra Karl fékk kvóta en venjulegur Kalli fékk ekkert. Það er það sem málið snýst um og það er eins og menn átti sig ekki á því. Svo er mjög líklegt í miklum niðurskurði eins og nú að enginn kvóti verði á lausu þegar líður á árið, þegar kemur að þessari veiði í júní, júlí og ágúst. Þá er ekkert víst að neinn kvóti fáist fyrir kvótalausa báta.

Þið eigið að sjá sóma ykkar í því, þið sem standið að ríkisstjórninni, að fresta þessu um 180 daga þangað til við erum búin að svara mannréttindanefnd varðandi hvaða breytingar þið ætlið að gera og hvernig og draga frumvarpið til baka. Það er í sjálfu sér lágmarkskrafa að þið valdið ekki ríkinu meiri kostnaði vegna skaðabóta sem fólk á (Forseti hringir.) rétt á.

(Forseti (KÓ): Ég vil minna hv. þingmann á að nota rétt ávörp.)