135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

álit mannréttindanefndar SÞ um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið.

[14:32]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar, ekki greinir okkur á um það, og á því byggir m.a. álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í lögum um stjórn fiskveiða segir að þau skuli stuðla að traustri atvinnu og byggð í landinu. Ég hugsa að okkur greini ekki mikið á um að þar hafi ýmislegt misfarist þótt ég búist við að sjávarútvegsráðherra telji að svo sé ekki. Staðreyndin er eigi að síður sú að byggðirnar standa víða mjög höllum fæti.

Hæstv. ráðherra leggur til að farið sé með gætni í þessu máli og segir að í því sé ekki skýr leiðbeining. Hann viti ekki hvort bjóða eigi mönnum bætur eða auka réttindi þeirra á grundvelli þessarar niðurstöðu. Ég tek hins vegar eftir því að Samfylkingin tekur undir það að endurskoða þurfi lögin og að gera þurfi það fyrr en seinna, helst sem fyrst. Út af fyrir sig erum við sammála því í Frjálslynda flokknum að þannig þurfi að taka á málinu. Það mun ekki bæta stöðuna að halda áfram að vinna eftir þeirri línu sem sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa unnið á undanförnum árum, að tína allar ómögulegar fisktegundir inn í kvótakerfið, eins og keilu og löngu sem voru settar á tvær eða þrjár kennitölur, eins og skötu sem fór á eina til tvær kennitölur o.s.frv. og allir aðrir eru leiguliðar þessara tegunda. Það er ekki leiðin að því markmiði að ná einhverri sátt um kvótakerfið.

Hæstv. forseti. Það verður að viðurkenna það og taka mark á því að það var Alþingi Íslendinga sem staðfesti þennan sáttmála. Það var gert 8. maí 1979. Við hljótum að taka mið af þeirri staðreynd og virða það sem við höfum undirskrifað.