135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:24]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er margt áhugavert sem fram kemur í þessu frumvarpi og jafnframt margt ánægjulegt varðandi breytingar á lögum um útlendinga. Eins og hæstv. ráðherra sagði er nú komin talsverð og nægileg reynsla á framkvæmd laganna sem sett voru árið 2002 til þess að hægt sé að gera á þeim nauðsynlegar breytingar og til að meta hvaða áhrif sú lagasetning hefur haft.

Ég tel að þær breytingar sem hér er verið að gera séu mjög góðar og að vissulega eru einhverjir þættir sem nefndin á án efa eftir að fara betur í gegnum með þeim sérfræðingum sem fyrir hana koma.

Nokkur atriði langar mig til að nefna sérstaklega. Ég sat mjög merkilegan fund í Háskóla Íslands í fyrrahaust þar sem verið var að fjalla um aðgengi útlendinga að háskólanum og aðgengi þeirra að námi þar. Þar kom í ljós að þó nokkrir annmarkar voru á aðgengi þeirra sem komu frá löndum utan EES í nám við Háskóla Íslands. Þeir voru fólgnir í framkvæmd á útlendingalögum og í ákvæðum sem byggð voru á reglugerðum.

Verið er að lögfesta talsvert af þeirri framkvæmd er varðar námsmenn. Mér þykir það fagnaðarefni að hér skuli einmitt vera tekið á fjölmörgum þáttum sem snúa að þeim vanda sem nefndir voru á þessum fundi sem ég sat. Má ég þar til með að nefna að það hefur verið vandamál hversu langan tíma það tekur að afgreiða umsóknir hjá Útlendingastofnun og hefur valdið ýmsum erlendum nemum vandkvæðum við að fá útgefin tilskilin leyfi til að geta hafið nám á réttum tíma.

Hér er verið að taka á því með því að heimila Útlendingastofnun að forgangsraða námsmannaleyfum við afgreiðslur eins og dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku. Það er mikið fagnaðarefni og veit ég að það mun skipta gríðarlega miklu máli.

Við þurfum alltaf að vera með málin í endurskoðun og ef við ætlum t.d. að ná þeim markmiðum sem Háskóli Íslands hefur sett sér, að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi, þá er þetta þáttur sem skiptir gríðarlega miklu máli. Það skiptir t.d. máli hvernig aðgengi nemenda er að íslenskum skólum frá skólum eins og í Bandaríkjunum þar sem fjölmargir skólar eru meðal þeirra 100 bestu í heiminum.

Við erum líka hluti af Bologna-ferlinu og þar eru ekki bara skólar innan EES. Þar er einmitt kveðið á um aukið flæði nemenda milli skóla sem fylgja því ferli. Allt eru þetta því hlutir sem skipta okkur máli.

Í frumvarpinu er fleira sem ég fagna og tel vera verulega til bóta miðað við framkvæmdina hingað til. Verið er að slaka á kröfum um námsárangur sem hingað til hefur verið 75% en er nú kominn niður í 50% miðað við fyrstu endurnýjun leyfis. Nemendur hafa því svigrúm á fyrstu önninni til að aðlagast og þá er eingöngu krafa um 50% námsárangur til þess að fá að vera hér áfram. Eftir það er krafa um 75% námsárangur. Það tel ég líka vera verulega til bóta vegna þess að við vitum að menningarheimar eru ólíkir og við eigum auðvitað að vera sveigjanleg í þessum efnum við þá sem hingað koma í fyrsta sinn.

Annað hefur valdið því að erlendir nemar hafa átt erfitt með að koma hingað í háskólanám er krafan sem gerð er við dvalarleyfi um framfærslu. Samkvæmt yfirlýsingum ráðherra er vilji til þess að veita námsmönnum svigrúm í þeim efnum og er það verulegt gleðiefni og mjög til bóta.

Vegna ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan hafði ég einmitt skilið frumvarpið og greinargerðina þannig að hér sé einmitt með mjög skýrum hætti verið að koma til móts við þá kröfu og þann sjálfsagða hlut að ekki séu svo skörp skil við 18 ára aldur sem raun ber vitni. Í frumvarpinu er bætt við sérstakri heimild í ákvæði laganna um námsmannaleyfi sem gerir þeim einstaklingum sem eru í framhaldsskóla og á grundvelli aðstandenda, kost á að fara í menntaskóla hér. Í dag er það þannig að samkvæmt greinargerðinni er hægt að veita þeim námsmannaleyfi vegna iðnnáms eða vegna atvinnuþátttöku en ekki vegna framhaldsskólaþátttöku. Hér er því breytt og það finnst mér mjög skýrt. Ég tel það líka vera verulega til bóta og eðlilegt. Þarna er enn eitt dæmið um að menn hafa verið að átta sig á framkvæmd laganna frá 2002 og færa nú hlutina til betri og réttlátari vegar.

Að lokum fagna ég því mjög að gerðar séu breytingar á svokallaðri 24 ára reglu og ég tel, eins og einnig hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra, að verið sé að færa þetta eins og annað að raunverulegri framkvæmd laganna. Hin svokallaða 24 ára regla var auðvitað mjög umdeild og fer nú út í þeirri mynd sem hún var í útlendingalögum og það er ánægjulegt. Verið er að færa hana að framkvæmdinni.

Ég tel mun eðlilegri leið sem nú er farin í frumvarpinu að kannað verði sérstaklega, ef makar eru yngri en 24 ára, hvort um málamyndahjúskap sé að ræða. Það er ákveðinn varnagli sem settur er og eðlilegt að hann sé með þeim hætti í stað þess að segja að allir 24 ára og yngri lúti öðrum lögum en þeir sem eldri eru.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tel að hér sér verið færa mjög margt til bóta og ég veit að allsherjarnefnd á eftir að fara vel í gegnum málið og þar munu án efa koma fram mörg áhugaverð sjónarmið. Ég ætla að láta máli mínu um þetta lokið hér í fyrstu umræðu.