135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:04]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar að áfengi er auðvitað ávanabindandi neysluvara sem getur haft skaðleg áhrif sé hennar neytt í óhófi. Það er alveg rétt og þetta á reyndar við um margar aðrar neysluvörur. Margar aðrar neysluvörur leiða til heilsufarsvanda og draga fólk til dauða vegna þess að þeirra er neytt í óhófi. (Gripið fram í.) Af því að hv. þingmaður nefndi hér að tiltekinn fjöldi manna deyr vegna ofneyslu áfengis á hverju ári víðs vegar um heiminn hygg ég að t.d. offita og sjúkdómar sem af henni leiða dragi fleiri til dauða í heiminum en ofneysla áfengis. Það þarf ekki annað en líta til Bandaríkjanna og sjá hvernig þróunin hefur verið þar.

Ég get alveg tekið undir það að taki menn ákvörðun um að rýmka þær reglur sem nú gilda um auglýsingar á áfengi sé í lagi að setja einhver skilyrði. Ég mundi t.d. ekki vera talsmaður þess að heimila auglýsingar sem væri beinlínis beint að börnum og ungmennum, enda hef ég lagt fram frumvarp sem mælir beinlínis fyrir um að slíkt sé bannað. Við verðum samt sem áður að haga löggjöf okkar þannig að leyfa það sem við getum og forðast að banna meira en nauðsynlegt er. Við verðum að gæta meðalhófs, við verðum að hafa það í huga að við búum í frjálsu landi og við verðum að treysta fullorðnu fólki til þess að haga lífi sínu eins og það sjálft vill. Bann mun ekki leysa þann vanda sem (Forseti hringir.) hv. þm. Jón Magnússon lýsti hér, a.m.k. hef ég ekki trú á því.