135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:10]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Efnislega getum við verið sammála, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, um umfang og gildi þess að borgararnir fái að haga sínu lífi sjálfir. Þrátt fyrir þá orðræðu sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur hér uppi þá hefur hann staðið að margvíslegri löggjöf sem þrengir þetta frelsi borgaranna, jafnvel takmarkað möguleika þeirra til að velja sjálfir sínar eigin sjónvarpsrásir eða útvarpsrásir og neytt þá til þess að greiða fyrir þær, hvort sem þeir vilja eða ekki, þvingunargjöld. Ekki er valfrelsinu fyrir að fara þegar um slíkt er að ræða.

Hvað varðar þá hugmynd hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að ekki eigi að vera með bann við auglýsingum eða koma einhverju slíku á, heldur ættu menn frekar að fara aðrar leiðir og, eins og hv. þingmaður benti á, láta heilbrigðiskerfið leysa þetta vandamál. Hvernig getur heilbrigðiskerfið leyst það vandamál? Jú, heilbrigðiskerfið getur gert það með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að taka á málinu þegar það er orðið vandamál og þegar það er orðið vandamál er iðulega ekki hægt að snúa til baka vegna þeirra hættueiginleika sem eru komnir. Hin leiðin er sú, sem ég hygg að okkur hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni hugnist hvorugum, að áfengisneytendur þurfi að fara í almenna mannaskoðun með ákveðnu millibili til að kanna með hvaða hætti og hvernig þeir hafa hagað neyslu sinni og hvort hún sé í lagi eða ekki.

Nei, við eigum að setja almennar reglur. Við leyfum þennan vímugjafa, við gerum það með ákveðnum takmörkunum og við viljum takmarka neysluna. Við erum sammála um það og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur sagt að hann sé sammála því að beina neyslunni með ákveðnum hætti inn á ákveðnar brautir og takmarka neysluna. Ein leiðin er sú að banna auglýsingar.