135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega kom fram í könnun að það er afgerandi stuðningur hjá almenningi við starfsemi Íbúðalánasjóðs og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill nú, rétt eins og á undanförnum árum, standa vörð um starfsemi sjóðsins þannig að hann geti starfað áfram í óbreyttri mynd. Það er því eðlilegt að ræða hlutverk og starfsemi Íbúðalánasjóðs á Alþingi núna þegar mikil umræða er um framtíð sjóðsins. Nýverið skilaði nefnd á vegum félagsmálaráðherra skýrslu með ákveðnum tillögum um húsnæðismarkaðinn sem því miður hefur ekki borið fyrir augu okkar þingmanna heldur er á borðum ríkisstjórnarflokkanna. Því vil ég spyrja formann félagsmálanefndar Alþingis, hv. þm. Guðbjart Hannesson, hver sé skoðun hans á starfsemi Íbúðalánasjóðs og þeim framtíðarmarkmiðum sem við viljum setja þeirri ágætu stofnun sem er þjónustustofnun. Er það svo, líkt og margir á hægri væng íslenskra stjórnmála hafa haldið fram, að Íbúðalánasjóður eigi fyrst og fremst að sinna félagslegum hlutverkum, sinna óvirkum markaðsaðstæðum og tilteknum hópum, eða vill hv. þingmaður að starfsemin verði áfram í óbreyttri mynd þannig að sjóðurinn geti lánað áfram m.a. á höfuðborgarsvæðið og á virk markaðssvæði?

Það er staðreynd að Íbúðalánasjóður hefur boðið lægstu vexti þegar kemur að húsnæðislánum. Við framsóknarmenn viljum standa vörð um þetta mikilvæga hlutverk Íbúðalánasjóðs. Hann var skapaður undir forustu okkar framsóknarmanna og er mjög mikilvægur í því ástandi sem nú er á húsnæðismarkaðnum því að húsnæðisvextir eru allt of háir í dag. Við teljum mjög mikilvægt, framsóknarmenn, að staðinn verði öflugur vörður um starfsemi Íbúðalánasjóðs og (Forseti hringir.) mikilvægt að heyra frá Samfylkingunni hvað hún vill í þeim efnum. Á að fylgja eftir stefnu okkar framsóknarmanna í málefnum Íbúðalánasjóðs?