135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um mikilvægi Íbúðalánasjóðs. Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að hægri menn hefðu oft haft horn í síðu þessa sjóðs og það er einfaldlega rétt. Því þegar bankarnir ruddust inn á þennan markað fyrir nokkrum árum heyrðust háværar raddir um að ekki væri þörf fyrir Íbúðalánasjóð lengur, hlutverk hans hefðu bankarnir tekið yfir. Nú kemur á daginn að mikilvægi Íbúðalánasjóðs er fyrir hendi og það er mikilvægt að standa vörð um hann. Það er því sérstakt fagnaðarefni að fólk úr mörgum flokkum skuli koma hingað upp og lýsa yfir stuðningi við þessa mikilvægu stofnun.

Hitt er svo annað mál að ég kannast ekki við að það hafi verið markmið Framsóknarflokksins, líkt og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti á hér áðan, að leggja þennan sjóð niður. Ég veit ekki hvað við framsóknarmenn höfum oft rætt um mikilvægi þessa sjóðs úr ræðustóli Alþingis enda kom Framsóknarflokkurinn meðal annars að stofnun hans á sínum tíma. Það er því algjörlega úr lausu loftið gripið hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að halda því fram að Framsóknarflokkurinn hafi ætlað að beita sér fyrir því að leggja þennan sjóð niður. Þvert á móti, hér er um einhvern misskilning að ræða hjá hv. þingmanni.

En eins og ég segi er ég mjög ánægður að heyra að hér sé þverpólitískur stuðningur við starfsemi sjóðsins. Það er miður að núverandi ríkisstjórn skuli hafa þrengt að starfsemi hans sem raun ber vitni. Miðað við orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns félagsmálanefndar, á ég von á því að menn muni hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs aftur upp í 90%, þ.e. lánshlutfallið, því það bitnaði sérstaklega á smærri sveitarfélögum og byggðarlögum úti á landsbyggðinni.

Það er líka forvitnilegt að heyra að formaður félagsmálanefndar Alþingis og þingflokkur Samfylkingarinnar skuli ekki hafa fengið að koma (Forseti hringir.) að þeirri ákvörðunartöku sem nú er uppi hvað það varðar að breyta húsnæðislánakerfinu. Það (Forseti hringir.) er mjög mikilvægt að stjórnarflokkur eins og þingflokkur Samfylkingarinnar komi að slíkum málum. (Forseti hringir.) Því miður er sú ekki raunin.