135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:14]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér þótti ekki koma sérstaklega skýrt svar við fyrirspurn hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur hjá hæstv. ráðherra. Það kom eiginlega ekkert svar þannig að ég sé ástæðu til þess að reyna að lokka hæstv. ráðherra til að svara.

Hvernig getur það farið saman að segja í Reykjavíkurborg að fráleitt sé að fara í útrás á orkusviðinu erlendis en á sama tíma segja að það sé sjálfsagt hjá ríkinu? Hvernig getur sami flokkurinn sagt svona misvísandi hluti?

Þar fyrir utan er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn var að blekkja þegar sagt var að hann hefði umboð til þess að ganga í þetta REI-mál. Á sama hátt sýnist manni, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, sjálfstæðismenn líka hafa blekkt Ólaf Magnússon, platað hann og sagt að búið væri að ganga frá einhverju meirihlutasamstarfi við vinstri græna í borginni fyrir stuttu. Þetta eru ekkert nema blekkingar.

Ég átta mig ekki á því að ráðherra geti ekki svarað. Er þetta ekki í algjörri mótsögn, stefna sjálfstæðismanna (Forseti hringir.) í borginni og stefna þeirra hjá ríkinu?