135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

losun koltvísýrings o.fl.

299. mál
[15:31]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessar viðamiklu spurningar. Það er með þær eins og reikningsdæmin, það skiptir máli hvaða forsendur menn gefa sér hvaða svör þeir fá.

Í fyrstu spurningu spyr hv. þingmaður hvað Kárahnjúkavirkjun spari mannkyninu mikla losun koltvísýrings miðað við að álið væri framleitt í Kína með rafmagni sem væri framleitt með brennslu kola. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun veldur raforkuframleiðsla með vatnsafli á Íslandi óverulegri losun, um 0,013 tonnum af koldíoxíði á hvert tonn af framleiddu áli. Framleiðslugeta álversins á Reyðarfirði, þegar það verður komið í fulla starfsemi, verður 346 þús. tonn á ári eins og kunnugt er. Orkuframleiðsla til álvers af þeirri stærð með vatnsafli eins og því sem nýtt er í Kárahnjúkavirkjun veldur losun um 5 þús. tonna af koldíoxíði á ári. Orkuframleiðsla af þeirri stærri stærð með kolum mundi valda losun 4,29 millj. tonna af koldíoxíði á ári að gefnum þeim forsendum sem hv. þingmaður gefur upp.

Í dag koma 57% orkunnar til álframleiðslunnar á heimsvísu úr vatnsafli, sem sagt rúmlega helmingur, 28% úr kolum.

Önnur spurningin er um sparnað í losun koltvísýrings, hversu stórt hlutfall þetta sé af bílaumferð hér á landi. Losun af bílaumferð á Íslandi nam 673 þús. tonnum á árinu 2005, það eru reyndar nokkuð gamlar tölur. Losun frá kolaorkuveri sem mundi knýja álver jafnstórt álveri Fjarðaáls þegar það verður komið í fulla vinnslu mundi losa um sexfalt meira en því nemur.

Síðan er spurt í raun um alvirkjun Íslands, þ.e. hvað hægt væri að spara, eins og það er orðað, mannkyninu mikla losun koltvísýrings ef öll virkjanleg orka yrði virkjuð hér á landi. Um þetta er það að segja, hæstv. forseti, að í fyrsta lagi er það matsatriði á hverjum tíma hversu mikil orka sé virkjanleg. Öll virkjanleg orka, væntanlega hver einasta á, hver einasta spræna, hver einasta volgra, allur jarðvarmi sem finna má hér á landi — ég leyfi mér að halda því fram að seint muni skapast vilji til þess að fara fram með þeim hætti hér á landi en til þess að svara spurningunni þarf að meta umfang virkjanlegrar orku. Sú vinna er í gangi eins og hv. þingmaður veit væntanlega og henni lýkur vonandi árið 2009.

Í öðru lagi þarf að meta hugsanlega losun vegna virkjananna, vatnsafls eða jarðhitavirkjana, og eins og vitað er losa jarðhitavirkjanir misjafnlega mikið. Það fer eftir staðsetningu þeirra og öðrum skilyrðum og síðan þarf að leggja á það mat til hvers eigi að nýta orkuna, í hvað hún eigi að fara og hvað sé þjóðhagslega hagkvæmt fyrir okkur að gera. Inn í það dæmi kemur umhverfismatið, mat á náttúru landsins og mat á landnýtingu yfir höfuð. Það þarf að vera inni í því dæmi.

Spurt er hvort íslenska ákvæðið svokallaða um heimild til losunar koltvísýrings gæti breyst í skyldu, sem sagt að einhver forsenda sé til þess að skylda landið til þess að virkja. Það er engin forsenda til þess og engin fordæmi fyrir því innan loftslagssamningsins að skylda ríki til að gera eitt eða annað, enda eru þar fullvalda og sjálfstæð ríki í samningaviðræðum eins og mönnum er kunnugt um. Engin slík hugmynd hefur borist mér til eyrna og ég á ekki von á því að neinn muni ræða það af neinni alvöru.

Að lokum spyr hv. þingmaður um Gullfoss og Dettifoss og hugsanlega kröfu erlendra umhverfisverndarsamtaka um að virkja þessi vatnsföll. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af erlendum aðilum sem vilja virkja eitthvað innan lands. Ég vona hins vegar að við séum komin svo langt hér á landi að engum manni detti í hug í einhverri alvöru, hvorki stjórnmálamönnum né öðrum, að virkjun Dettifoss eða Gullfoss sé möguleiki.