135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

losun koltvísýrings o.fl.

299. mál
[15:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Reyndar finnst mér hún vera dálítið léttlynd gagnvart koldíoxíðmengun heimsins. Ef það er virkilega staðreynd að jörðin sé að hitna er ekki spurning um ef eða hvenær, þá verður þetta krafa, hrein krafa. Nákvæmlega eins og á að fara að skylda menn að taka upp koldíoxíðkvóta verður krafa um að menn virki þá orku sem til er í heiminum sem veldur ekki mengun. Ég get ekki séð annað. Mig langar til að láta hæstv. ráðherra lýsa því yfir að Íslendingar njóti einhverra sérstakra kjara í heiminum, þeir megi geyma sína mengunarlausu orku á meðan heimurinn er að farast. Núna er verið að opna nokkur raforkuver í Kína í hverjum mánuði og þau brenna heilu fjöllunum af kolum.

Er þetta ekki sami hnötturinn, herra forseti? Þetta er nefnilega sami hnötturinn. Mér finnst hálfléttlynt að segja að engin krafa verði á Íslendinga. Það er verið að skylda þjóðir til að taka upp koldíoxíðkvóta og nákvæmlega eins getur komið krafa um að virkja þá orku sem er til og mengar ekki neitt. Það að menn skuli ekki vera hræddir við alþjóðleg umhverfisverndarsamtök — ég held að full ástæða sé til. Þau hafa meira að segja talað um að banna Íslendingum að veiða þorsk og eru ekkert að velta fyrir sér hvort Íslendingar lifa á þorski eða ekki.

Við skulum búast við hverju sem er frá alþjóðlegum umhverfisverndarsamtökum, sérstaklega þegar þau uppgötva að hægt sé að spara mannkyninu heilmikla koldíoxíðlosun með því að virkja hverja einustu sprænu á Íslandi, jafnvel Gullfoss sem ég vona að verði aldrei.