135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

friðlýsing Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

59. mál
[13:48]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau orð að standa eigi við þá stefnuyfirlýsingu sem Samfylkingin og hæstv. ráðherra hafa gefið varðandi friðun og verndun Jökulsánna í Skagafirði.

Hæstv. ráðherra kom inn á að enn væri unnið að frekari útfærslu rammaáætlunar um rannsóknir og nýtingu á vatnsafli og jarðvarma. Ég vil minna á að staða mála varðandi Jökulsárnar í Skagafirði er sú að ekki er hægt að bíða þeirrar niðurstöðu.

Skilað var mati á Jökulsánum í fyrstu gerð rammaáætlunarinnar. Miðað við álitið sem þar var unnið sýndust mér þeir sem unnu lokaálitið í því ekki hafa sýnt ánum tilhlýðilega virðingu. Rannsóknirnar sem þar fóru fram voru fjarri því að vera fullnægjandi. Segja má að einungis hafi verið rannsökuð staðbundin áhrif af því að gera eina stíflu en lítið gert með að skoða áhrifin á lífríkið í heild, frá jöklum til sjávar og á haf út. Þær rannsóknir sem liggja þar að baki, við fyrri hluta rammaáætlunar, voru afar ófullnægjandi og virtist á engan hátt hægt að leggja þær til grundvallar fyrir sanngjarnt mat. Þeim var mótmælt af hálfu margra heimamanna, bæði vinnubrögðunum og niðurstöðunum.

Hvað varðar umhverfismatið fyrir Villinganesvirkjun, sem var keyrt í gegn að því er virtist meira á pólitískum en faglegum forsendum, þá stendur það leyfi af hálfu Umhverfisstofnunar. Þar skortir því einungis á að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ekki veitt framkvæmdaleyfi.

Við höfum tekið slaginn á undanförnum þingum þar sem hart hefur verið sótt að fá að gefa út rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun og hefur verið tekist hart á um það. Ég lagðist alfarið gegn því. Um leið og búið er að gefa út rannsóknarleyfi til virkjana er í raun búið að merkja svæðið og setja ákveðið ferli í gang. Ég hvet hæstv. umhverfisráðherra því til að taka á þessu máli eins og við flutningsmenn þessarar tillögu leggjum til. Látum ekki sverð virkjunarsinna og þeirra sem vilja tortíma ánum hanga stöðugt yfir höfðum þeirra sem þarna vilja standa vörð. Það þarf að gera með afdráttarlausum hætti.

Ég bendi á fylgiskjöl sem fylgja þingsályktunartillögu okkar. Ég bendi á að opinn fundur um verndun jökulánna og náttúru þeirra, haldinn á Sauðárkróki 25. september 2006, mótmælti áformum meiri hluta sveitarstjórnar Skagafjarðar um að gera ráð fyrir Villinganesvirkjun á aðalskipulagi. Fundurinn skoraði á sveitarfélögin í Skagafirði að koma í veg fyrir að Héraðsvötnum og Jökulsánum í Skagafirði yrði fórnað.

Ég hef einnig undir höndum ályktun frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, áskorun um að Jökulsárnar í Skagafirði, bæði Austari- og Vestari-Jökulsá verði friðaðar og fallið frá öllum áformum um virkjanir við Villinganes eða Skatastaði.

Ferðamálasamtök hafa einnig hafa varað við og lagst gegn virkjanaáformum varðandi Jökulsárnar í Skagafirði. Þau hafa óskað eftir því að þau verði afdráttarlaust tekin af dagskrá. Það er verið að byggja upp geysivinsælar fljótasiglingar á Jökulsánum í Skagafirði. Myndir af frjálsum, fossandi jökulánum eru notaðar sem kynningarefni fyrir náttúruvernd og ferðaþjónustu sem byggir á hreinni náttúru úti um allan heim. Mér fannst hálfskondið, þegar áform voru um að virkja og stífla þessar ár, þegar myndefni frá þeim var samtímis notað erlendis sem kynningarefni fyrir ósnortna náttúru Íslands í auglýsingaskyni. Það er mjög brýnt að á þessu máli verði tekið.

Málið á sér langan aðdraganda. Það var skipuð sérstök framtíðarnefnd árið 1977. Hún var sett á stofn á vegum Sauðárkróksbæjar og hafði það verkefni að setja fram í skýrslu framtíðarsýn fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð. Í nefndinni sátu níu Skagfirðingar af ýmsum starfssviðum og með mismunandi menntun og reynslu. Nefndin skilaði skýrslu sinni í júlí sama ár. Þar segir að mat nefndarinnar sé að í Skagafirði eigi ekki að stefna að efnaiðnaði eða annars konar mengandi stóriðju, að setja beri á stefnuna hreina atvinnustarfsemi og móta umhverfið og efla aðdráttarafl fyrir fólk til búsetu á þeim grunni. Þar er einnig lögð áhersla á verndun Jökulsánna.

Þetta er ítrekað í mörgum þeim ályktunum sem hafa verið gerðar í Skagafirði, að standa vörð um árnar og ég vil ljúka máli mínu, herra forseti, á að vitna í grein eftir Sigríði Sigurðardóttur, safnvörð í Glaumbæ, sem hún skrifaði í Feyki 10. nóvember 2004. Lokaorð greinarinnar eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hvað stjórnar gerðum okkar þegar við viljum leggja heilu landsvæðin undir óafturkræfar aðgerðir og höndla og drottna eins og hverjum sýnist? Hagsmunir hverra eru í húfi? Hvað rekur menn áfram? Stolt? Völd? Hégómi? Skammsýni? Eða skítt með náttúruna ef ég get grætt á henni, skítt með umhverfið ef það er ekki í alfaraleið ...?“

Hún leggur áherslu á hversu gríðarlega mikilvægt kennitákn bæði fyrir sögu, menningu og lífríki Skagafjarðar Jökulsárnar eru. Ég ítreka þess vegna hve mikilvægt er að nú þegar verði hafin skipuleg vinna til þess að friðlýsa Austari- og Vestari-Jökulsárnar. Þessi tillaga sem flutt er af öllum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár ásamt þverám þeirra, verði tekin fyrir og að Alþingi afgreiði þetta mál til ríkisstjórnarinnar og að Vötnin, Héraðsvötnin, fái í friði „ólgandi að ósum sínum renna“.

Ég óska eftir því að að lokinni umræðunni, herra forseti, verði þessu máli vísað til umhverfisnefndar.