135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:59]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að við drögum þetta niður í punkt held ég að það sem felst í orðum hæstv. umhverfisráðherra í bæklingnum margumtalaða þar sem hún heldur því fram að brýnasta úrlausnarefni mannkyns á okkar dögum sé að draga úr loftslagsbreytingum af manna völdum og að Ísland eigi að vera þar í fararbroddi sé nokkuð sem við getum verið sammála um.

Ríkisstjórnin hefur í sjálfu sér skrifað undir þessa yfirlýsingu. Það sem við eigum hins vegar eftir að sjá er útfærsla þeirra aðferða sem hæstv. ríkisstjórn sér að hægt verði að beita til að ná þessum markmiðum. Eins og málin standa núna erum við bara ekki í fararbroddi og það er svo langt í frá. Meðan við losum 17 tonn á mann af gróðurhúsalofttegundum vegna þess að við höfum gefið fríkort á stóriðju erum við ekki í fararbroddi. Ég vil minna hv. þm. á að hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir var annar tveggja þingmanna Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Þess vegna tel ég að þar sem hún var í miklum minni hluta í þeim hópi þingmanna sem þá var hjá Samfylkingunni — hún er kannski ekki í eins miklum minni hluta innan Samfylkingarinnar í dag eins og hún var þá vegna þess að margt hefur gerst og sjónarmiðin hafa breyst hratt — tel ég að ríkisstjórnin þurfi að standa betur í að útfæra aðferðir til að ná þeim markmiðum sem ég tel að við séum í huga okkar sammála um.