135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[13:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. iðnaðarráðherra sem ráðherra byggðamála og þess sem öðrum fremur ber hagsmuni landsbyggðarinnar fyrir brjósti, gætir að hagsmunum hennar og vinnur að framfaramálum á þeim vettvangi.

Eitt af þeim málum sem landsbyggðarmönnum er ofarlega í huga er staðsetning flugvallar í Reykjavík. Það má heita einróma afstaða landsbyggðarmanna að flugvöllurinn eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni. Menn líta svo á að það að ætla sér að flytja flugvöllinn þaðan eitthvað annað skaði hagsmuni landsbyggðarinnar og dragi úr því öruggi sem þeir búa við í því ljósi að hafa flugvöllinn staðsettan við helsta sjúkrahús landsmanna og draga úr aðgengi landsbyggðarmanna að stjórnsýslustofnunum ríkisins. Það þarf svo sem ekki að fara fleiri orðum um hversu slæm áhrif það er talið hafa að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. (MÁ: Hvaða landsbyggðarmanna, þingmanna?)

Í síðustu viku bárust tvær góðar fréttir fyrir þá sem vilja hagsmunum landsbyggðarmanna vel í þessum efnum. Annars vegar kom fram í blaði í síðustu viku skoðanakönnun sem dró fram að afstaða Reykvíkinga sjálfra til flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur gjörbreyst á einu og hálfu ári. Nú eru um 60% Reykvíkinga á þeirri skoðun að flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni. Áður voru það aðeins 36%. Það hefur aukist fylgi við flugvöllinn meðal Reykvíkinga sjálfra, um 24%. Í öðru lagi tók við völdum nýr meiri hluti í borgarstjórn Reykjavíkur sem hefur það sem sitt fyrsta verkefni og efst á blaði að hrófla ekki við flugvellinum í Vatnsmýrinni.

Mig langar að fá að vita hjá hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann muni ekki fylgja þessum góðu fréttum eftir og leggja sitt af mörkum til að tryggja það að flugvöllurinn verði áfram (Forseti hringir.) í Vatnsmýrinni í Reykjavík.