135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ræða hv. þm. Jóns Gunnarssonar var um margt fróðleg. Það kemur þó á óvart að hv. þingmaður skuli koma í ræðustól Alþingis til að halda eins konar varnarræðu fyrir það fiskveiðikerfi sem nú er við lýði án þess að benda á lausnir eða leiðir út úr þeim vanda sem það er nú í og öll þjóðin. Úrskurður hefur fallið og ekki skiptir máli hverrar þjóðar þeir menn eru sem voru í meiri hluta eða minni hluta. Ég vara hv. þingmenn við því að telja upp þjóðerni manna, kyn, litarhátt, trúarbrögð eða annað af því tagi máli sínu til stuðnings eða réttlætingar, það er óvarlegt. (Gripið fram í.) Það eru ekki mín orð, hann er kannski klaufi en við skulum ekki ætla honum meira.

Það er líka staðreynd að 14 árum eftir að þetta stjórnkerfi fiskveiða var sett á fót hefur það ekki náð að gegna meginhlutverki sínu, því hlutverki sem allir voru sammála um á sínum tíma, þ.e. að rányrkju á fiski í sjónum yrði hætt og þorskafli og annar afli úr sjó ykist en minnkaði ekki. Þær tölur sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson nefndi hér áðan eru réttar hvað sem segja má um annað í ræðu hans. Hv. þm. Jón Gunnarsson segir sem svo að ekki megi hengja bakarann — þ.e. fiskveiðistjórnarkerfið — fyrir smiðinn. Hann verður þá að (Forseti hringir.) finna annan í hlutverk smiðsins en hvalinn sem er það eina sem kom upp úr Jóni Gunnarssyni um orsakir þess að aflinn úr sjó hefði minnkað jafnmikið og raun ber vitni (Forseti hringir.) á 14 árum.