135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:59]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að enginn deili um að stjórnvöldum beri að búa þannig um hnútana að sem minnst hætta sé á því að mengunarslys verði í lögsögu Íslands og á hafsvæðinu í kringum Ísland. Að sjálfsögðu hljótum við að vinna í þeim anda í samskiptum við önnur ríki og við mótun umhverfisstefnu, þ.e. að gæta lífríkisins, ekki bara á landi heldur líka í sjó.

Ég vil að gefnu tilefni segja þingheimi frá því að í hádeginu í dag þá stóð ráðuneytið ásamt stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands fyrir fundi um siglingu olíuskipa á hafinu kringum landið. Þar töluðu sérfræðingar frá Umhverfisstofnun og Landhelgisgæslunni en ég átti því miður ekki kost á að sitja þann fund. Ég vænti þess að þaðan fáum við fréttir af áliti sérfræðinga okkar á þessu brýna máli. En auðvitað er það bara byrjunin á umræðu sem þarf að fara fram í samfélaginu og einnig á hinu háa Alþingi um þessi mál. Hér er um stórt öryggis- og umhverfismál að ræða eins og ég sagði áðan. Þau tvinnast þar saman og þetta snýst líka um grundvöllinn fyrir íslensku samfélagi, fiskimið í kringum landið.