135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[18:17]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við raforkutilskipunina er að það er illmögulegt að semja sig burt frá reglum sem ríki hefur þegar samið sig undir.

Ég vil undirstrika og vekja athygli á því að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu árum til dæmis beitt sér fyrir því að halda uppi rétti ríkja til að halda úti almannaþjónustu. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að Evrópusambandið hefur staðið vörð um þann rétt. Sú mynd sem hv. þingmaður dregur hér upp er nokkuð einsleit. Ef hún ætti við veruleg rök að styðjast þá hlýtur hið eðlilega svar að vera að ganga sem aðili í Evrópusambandið og hafa þá áhrif á þessa forgangsröðun, áhrif á þetta verklag og áhrif á það hvort þessi nýju svið verði felld undir sambandið í staðinn fyrir að sitja hér uppi á Íslandi og hafa af því þungar áhyggjur að þetta sé allt að gerast en viðurkenna jafnframt að síðan eigum við engan kost annan en að innleiða þær tilskipanir sem síðan koma.

Ég held að með öflugu starfi ættum við verulega möguleika á því ásamt okkar norrænu samstarfsríkjum og öðrum ríkjum Norður-Evrópu að hafa veruleg áhrif á forgangsröðun að þessu leyti. Ekki má gleyma því að þrátt fyrir að oft sé klifað á þeirri bábilju að Evrópusambandið sé að þróast í átt til stórríkis þá liggur fyrir skuldbinding Evrópusambandsins um að aðildarríkin verði 35 árið 2015. Vægi smáríkja eykst ár frá ári og hér í Norður-Evrópu er fjöldi smáríkja með afskaplega líka sýn og aukið samstarf ríkja við Eystrasaltið veldur því að þessi ríkjahópur getur haft gríðarleg áhrif á Evrópusambandið. Aðalatriðið er að menn verða að sitja við borðið til að ákveða forgangsröðina.