135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

staða krónunnar.

[15:15]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki sagt að ef við ættum að taka upp annan gjaldmiðil ætti það að vera dollar. Ég hef bara bent á að menn yrðu að skoða það í hvaða gjaldmiðlum Íslendingar eiga helst viðskipti áður en þeir hefja einhverjar vangaveltur af þessu tagi í alvöru. Ég hef bent á að mjög stórir hlutar í utanríkisviðskiptum Íslendinga væru í dollurum. Það þarf ekkert að segja fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem beitti sér fyrir — og stærir sig eðlilega af því — stóraukningu á álframleiðslu á Íslandi, að ál á alþjóðlegum mörkuðum er allt selt í dollurum. Þess vegna er hlutdeild dollaraviðskipta í útflutningi Íslendinga að aukast núna með stórauknum útflutningi áls, en ekki minnka. Menn verða að gjöra svo vel og horfast í augu við það hvernig þessir hlutir liggja. Þó að menn hafi ákveðna tilhneigingu til að vilja vingast við Evrópusambandið verður að horfa á heildarmyndina í málinu. Það er það sem ég hef leyft mér að benda á.