135. löggjafarþing — 58. fundur,  4. feb. 2008.

stjórnarskipunarlög.

342. mál
[18:26]
Hlusta

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og það flytja ásamt mér hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Jón Magnússon og Kolbrún Halldórsdóttir. Frumvarpstextann ætla ég ekki að lesa hér upp að sinni en með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kjördæmaskipting í Reykjavík verði afnumin. Hún var tekin upp með lögum frá 1999 og 2000 þegar kjördæmum var fækkað í sex en þá varð sú nýbreytni að kjósendum í Reykjavík var skipt í tvö kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Reyndar var þetta haft þannig að mörk kjördæmanna voru ekki ákvörðuð í kosningalögum eins og allra annarra kjördæma heldur er landskjörstjórn falið að ákveða þau hverju sinni.

Þetta var í fyrsta sinn í kosningasögu og lýðræðissögu Íslands að sveitarfélagi var skipt upp í sérstök kjördæmi við alþingiskosningar. Það hefur aldrei gerst áður og jafnvel þegar sá siður var hér almennastur í kosningum til Alþingis að kjósa í einmenningskjördæmum, þá náðu þau ekki til sveitarfélaga. Þar voru kosnir tveir eða fleiri eftir atvikum og kjósendafjölda.

Á sínum tíma voru þau rök helst færð fyrir því að skipta Reykjavík í tvö kjördæmi að þannig yrðu þingmannahópar kjördæmanna sex svipaðir að stærð og því hentugar einingar við útreikning í kosningakerfinu sem upp var tekið. Það þótti líka kostur að jafna þingmannahópa og var látið í veðri vaka að það mundi virka hér með tilteknum hætti á þinginu. Það væri nánast hættulegt eða varasamt að þingmannahópur Reykjavíkur væri þá helmingi stærri en hinna.

Reykvíkingar og fulltrúar þeirra mótmæltu því strax að skipta sveitarfélaginu í tvö kjördæmi og um það er til vitnis samþykkt borgarráðs frá 26. janúar 1999 áður en þetta var gert og eftir að þetta var gert 25. apríl 2000 þar sem borgarráð mótmælir harðlega þessari breytingu. Andstaðan var þó minni en vert var vegna þess að með breytingunum í heild fólust réttarbætur fyrir Reykvíkinga og aðra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Dregið var úr misvægi atkvæða og helmingsmunur ákveðinn á atkvæðamisvægi við rásmark kerfisins þegar það færi í gang. Það gerðist í fyrsta sinn í sögunni að íbúar höfuðborgarsvæðisins, sem nú eru um rúmlega þrír fimmtu landsmanna, fengu meiri hluta þingmanna í sinn hlut, 33 af 63. Hér var því um réttarbætur að ræða um leið og Reykjavík var skipt upp, sem kannski slævði andstöðu við það síðara.

Það er skemmst frá því að segja að í Reykjavík skilur ekki nokkur maður af hverju sveitarfélagið þarf að skiptast í tvö kjördæmi. Kjördæmaskiptingin hefur á hinn bóginn aukið vanda við lýðræðisstarfsemi í höfuðborginni að mun. Rétt er að taka fram að Reykvíkingar hafa ekki myndað nein sérstök tengsl við „sína“ þingmenn í öðru hvoru kjördæminu umfram þingmenn í hinu borgarkjördæminu. Stjórnmálasamtök í borginni skipuleggja grunneiningar sínar eins og um eitt kjördæmi væri að ræða og hafa gert það frá upphafi, öll nema Framsóknarflokkurinn sem skipti sér í tvennt í borginni og stofnaði kjördæmasamband í suðurhlutanum og kjördæmasamband í norðurhlutanum. Þetta gafst þannig að Framsóknarflokkurinn er nú hættur þessu og hefur sameinað kjördæmasambönd sín á ný. Þingmannahópar kjördæmanna tveggja hafa aldrei fundað hvor í sínu lagi og ekki haft með sér nokkurn félagsskap og það má raunar færa að því rök að við kjördæmabreytinguna hafi heldur dregið úr samstarfi Reykjavíkurþingmanna, sem var ekki mikið fyrir, og kjósendur í Reykjavík hafa oftlega kvartað undan að sé ekki nógu gott.

Þau rök liggja í því að forustumennirnir eru nú tveir. Í staðinn fyrir að vera einn og óskoraður forustumaður eru forustumennirnir tveir. Eftir að kosið var í fyrra skiptið samkvæmt þessu kerfi kom það upp á teninginn að í öðru kjördæminu varð þingmaður úr Sjálfstæðisflokknum fyrsti þingmaður kjördæmisins, í hinu þingmaður úr Samfylkingunni og þess varð ekki vart að samvinna þessara tveggja forustumanna væri eins og best væri á kosið. Þetta kann að vera betra núna, ég þekki það ekki eins vel en núna eru báðir þingmennirnir úr sama flokki og raunar báðir ráðherrar í ríkisstjórninni en ég hygg að ekki hafi reynt neitt á þessa þingmannahópa þannig að þau rök eru ekki fyrir hendi.

Menn þekkja í sögunni að íbúar í einstökum hverfum hafa í hvorum tveggja þeim kosningum sem háðar hafa verið eftir nýja kerfinu þurft að bíða fram á síðustu vikur kosningabaráttunnar eftir úrskurði um það í hvoru kjördæminu þeir skuli kjósa. Íbúum Grafarholts er þetta einkum kunnugt því að þeir urðu fyrir því í fyrra skiptið að lenda á skjön við þá meginreglu sem landskjörstjórn setti að þessi stóri vegur í gegnum alla Reykjavík, Hringbraut, Miklabraut, Vesturlandsvegur, skipti kjördæmunum. Íbúum Grafarholtshverfis sem búa sunnan þessarar brautar var skipað í norðurkjördæmið í fyrra skiptið og í síðara skiptið, í vor leið, brá svo við að kjördæmamörkin voru dregin þvert um hverfið og menn geta ímyndað sér hvaða hvatning það er fyrir hverfastarf bæði pólitískt og félagslegt. Þetta mætti auðvitað laga í sjálfu sér án þess að breyta stjórnarskrá eða kosningalögum. Landskjörstjórn gæti náttúrlega gert þetta með öðrum hætti en þetta fylgir samt þeirri skipan sem hérna var tekin upp.

Rétt er að rifja það upp að í kosningunum 2003 urðu þau mistök að menn sáu sig tilneydda að úrskurða atkvæði gild í norðurkjördæminu sem greidd voru í suðurkjördæminu þegar íbúar við Framnesveg tóku upp á því að flykkjast í vitlausan skóla og greiða þar atkvæði, þeir sem áttu heima sunnan Hringbrautar. Þetta er auðvitað einsdæmi á Íslandi og sennilega þótt víðar sé leitað að svona fari, þannig að kjördæmamörkin eru í raun og veru ekki virt þegar til stykkisins kemur. Þannig hefur þetta bitnað á kjósendum en þetta hefur líka bitnað á frambjóðendum og flokkum. Í bæði skiptin, 2003 og 2007, hefur það gerist að frambjóðandi sem ekki náði kjöri hafði fengið meiri stuðning í prófkjöri síns flokks en frambjóðandi sem náði kjöri á lista flokksins í hinu borgarkjördæminu. Þetta gerðist í fyrra skiptið í Sjálfstæðisflokknum að frambjóðandi, ég skal ekki segja í hvaða sæti það var, komst ekki að en frambjóðandi sem var neðan við hann komst að. Hitt dæmið er um Samfylkinguna og sá frambjóðandi sem ekki náði kjöri stendur í stólnum til vitnis um það að þetta vandamál er ekki eingöngu fræðilegt heldur af holdi og blóði.

Það má reyndar minnast á það að þetta kjördæmakerfi hefur líka valdið því, af holdi og blóði, að það hefur komið afar illa við heilan stjórnmálaflokk. Hönnuður þessa kerfis gerði mér og öðrum þann greiða að reikna það út hvernig farið hefði í kosningunum síðast ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi og hann komst að því að þingmannatalan hefði að sjálfsögðu verið óbreytt í heildina en það hefði hins vegar gerst að fyrsti maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæminu hefði verið kjörinn og VG fengið þrjá þingmenn í stað fjögurra í Reykjavíkurkjördæmi og fengið fjórða þingmanninn í staðinn í Norðausturkjördæmi en þriðji maður Framsóknar þar fallið út. Það er auðvitað tilviljun hvernig þetta gerist en undir það hlýtur maður að taka almennt, það er auðvitað hlálegt að u.þ.b. 6.000 kjósendur í Reykjavík sem kusu Framsóknarflokkinn skuli ekki hafa þingmann þar en 5.700 kjósendur Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi hafi þar þrjá og er þá algerlega ólastaður hv. 3. þm. Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hinn ágæti hv. Höskuldur Þórhallsson. Sumir hafa haft það á móti þessari tillögu minni að þetta hefði hugsanlega breytt forustumálum í þeim flokki sem um er talað, Framsóknarflokknum, og hugsanlega breytt ríkisstjórnarmyndun líka, hver veit? En það er ekki það sem við eigum að hugsa um hér heldur einhvers konar sanngirni og að kjördæmakerfið falli að pólitíkinni í landinu og félagslegu samhengi.

Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi flækir leikreglur lýðræðisins fyrir kjósendum og veldur þeim óþægindum sem kosningakerfi á ekki að gera. Kjördæmaskiptingin hefur þyngt róðurinn við stjórnmálastarfið í borginni, aukið vanda við framkvæmd kosninga, spillt vali á framboðslista og torveldað samráð með fulltrúum Reykvíkinga á þingi. Þess vegna er nauðsynlegt að gera höfuðborgina að nýju að einu kjördæmi við alþingiskosningar. Þetta frumvarp gerir ráð fyrir því að breyta stjórnarskránni vegna þess að þar er fjöldi kjördæma tiltekinn. Þau skulu vera fæst sex en flest sjö og breyting sem ekki væri á stjórnarskránni en miðar að því að gera Reykjavík að einu kjördæmi yrði þá að innifela það að fjölga kjördæmum utan Reykjavíkur sem væri auðvitað fullkomlega óeðlilegt. Hér er gerð sú tilraun að breyta eins litlu og hægt er, laga aðeins það að Reykvíkingar kjósi í einu kjördæmi.

Það væri hins vegar eðlilegt ef menn féllust á þessa breytingu að gera tvær í viðbót á kosningalögunum, annars vegar þá að breyta úthlutun uppbótarmanna með tilteknum hætti til þess að Reykvíkingar fengju uppbótarmenn með svipuðum hætti og í öðrum kjördæmum. Það mundi hvorki fjölga þeim né fækka en gerði það að verkum að það væri sanngjarnari úthlutun en ella. Hin breytingin sem menn þyrftu a.m.k. að taka afstöðu til væri sú að setja þröskuld í hverju kjördæmi fyrir lista sem fengi kjördæmakjörinn mann. Nú er þessu þannig háttað eins og við vitum að til úthlutunar uppbótarsæta þarf landsframboð að fá 5% af heildarfylgi og fái það það ekki fær það ekki uppbótarmenn. Listar í hverju kjördæmi þurfa síðan að ná manni inn í kjördæminu og lágmark sem þarf til þess er í kringum 9–10%, heldur minna í fjölmennasta kjördæminu sem er Suðvesturkjördæmi en 9–10% í Norðvesturkjördæmi. Ef menn vildu hafa það algerlega jafnt og koma í veg fyrir að framboð í Reykjavík sem fengi t.d. 5% gæti komið að manni þá mundi þurfa að setja almenna reglu um þröskuld í kjördæminu. Ég tek þetta fram, ekki vegna þess að ég hafi mikla skoðun á því, mér þykir 5% þröskuldurinn reyndar nokkuð hár og 9–10% þröskuldur þykir mér enn hærri og ekki í raun og veru sanngjarn þó að ég fallist á að einhver þröskuldur þurfi að vera þannig að við höfum ekki stjórnarfar svipað og í Ísrael þar sem er fullkomin hlutfallskosning og smáflokkar nánast vaða uppi á þinginu með óheppilegum afleiðingum fyrir lýðræðið og stjórnarfarið í því landi. En það er a.m.k. sanngjarnt að þessi þröskuldur sé nokkurn veginn jafn í öllum kjördæmum.

Að lokum fagna ég þeirri umræðu sem þegar hefur orðið um þessa tillögu í samfélaginu og í óformlegum samræðum manna hér í alþingissamfélaginu og treysti því að tillagan haldi áfram að rekja umræðu og verði að veruleika, við skulum orða það þannig að hún verði að veruleika fyrr en síðar.