135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:32]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Formaður þingflokks sjálfstæðismanna, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur fengið stimpilinn þingskörungur og harðstjóri í sínum flokki af hálfu Morgunblaðsins. Ég hef alltaf álitið mikilvægt að það væri harðstjóri sem stjórnaði Sjálfstæðisflokknum, ég get tekið undir að það sé mikilvægt. En í ljósi þessa vil ég ræða um eftirfarandi við hv. þingmann.

Hæstv. forsætisráðherra var spurður í desember um störf stjórnarskrárnefndarinnar sem hafði m.a. það hlutverk að skoða setningu ákvæðis í stjórnarskrá um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindunum sem óneitanlega tengist frumvarpi sem nú situr fast í þingflokki sjálfstæðismanna. Í ljósi nýfengins álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er ljóst að spurningin um eignarhald auðlindanna og ekki hvað síst nytjastofna á Íslandsmiðum sem hingað til hafa verið talin í eigu þjóðarinnar, er orðin hávær og fólkið í landinu kallar eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er talið að ríkisstjórnin hafi 180 daga og þingið verður að koma að þessu máli.

Ég spyr því: Hvaða vinna er í gangi af hálfu forustuflokks ríkisstjórnarinnar og álítur hv. þingmaður ekki að þetta mál verði að koma inn sem allra fyrst til að skýra stefnuna? Sjávarútvegurinn sem hefur orðið fyrir miklu áfalli ekki síst vegna vinnubragða hæstv. sjávarútvegsráðherra þolir ekki að um þetta ríki óvissa. Á því verður að taka.

Síðan langar mig líka að spyrja hvað líði frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr fast í þingflokki sjálfstæðismanna. Manni virðist af lestri Morgunblaðsins að það eigi áheyrnarfulltrúa, hugsanlega með tillögurétt í þingflokknum en það er mikilvægt að það mál komi sem allra fyrst fyrir þingið og því vil ég spyrja hv. þingmann: Hvenær er von á því máli? Hvenær lýkur Sjálfstæðisflokkurinn umræðu sinni um málið og skilar því inn í þingið?