135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:35]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra kveikti aðeins í mér, hann talaði um að ekki væri gott ástand í Danmörku í sambandi við læknamál en bar sig nokkuð drjúglega hvað varðar stöðuna hér. Nýlega bárust fréttir af því að um 30.000 manns hefðu ekki heilsugæslulækni, 20 lækna vantaði í heilsugæsluna, margir væru orðnir vel fullorðnir og liti út fyrir að tiltölulega margir mundu hætta á þessu ári og þar með væri vandinn orðinn enn meiri. Ég held því að við stöndum frammi fyrir ansi stóru og erfiðu máli og mér dettur í hug að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann sé að gera í því að bæta þarna úr. Heilsugæslan er, að mínu mati, grunnþjónustan í heilbrigðismálum og skiptir gríðarlegu máli að þar sé haldið vel á málum.