135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

mannréttindabrot í Guantanamo.

[13:53]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli í þingsölum. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir ágæt svör við þeim hugmyndum sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók vel í. Eins og hæstv. ráðherra orðaði það þá hyggst hann skoða þessar hugmyndir mjög alvarlega.

Við hljótum að velta fyrir okkur á hvaða vegferð Sjálfstæðisflokkurinn er í þessum málum. Mikill áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins kemur fram með þessar hugmyndir og hæstv. landbúnaðarráðherra bregst við með því að taka líklega í þær. Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að fara með þessum hugmyndum?

Þarna eru að verki öfl innan flokksins sem vilja hverfa frá stuðningi við íslenskan landbúnað. Var ekki við því að búast þegar ný ríkisstjórn var mynduð, að þessi öfl innan Sjálfstæðisflokksins mundu leysast úr læðingi þegar þeir hefðu samstarf við kratana? Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að hér eru menn að hreyfa við hugmyndum um að Ísland, eitt vestrænna landa, hverfi frá stuðningi við íslenskan landbúnað, þ.e. mjólkurframleiðslu í þessu tilviki.

Það er rétt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir benti á áðan að við erum að tala um fæðuöryggi þjóðarinnar. Hér er í raun um sjálfstæðismál að ræða fyrir okkur Íslendinga, að við séum á viðsjárverðum tímum sjálfum okkur nóg um matvælaframleiðslu.

En þetta er ekki eina málið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn setur málin fram með mjög einkennilegum hætti gagnvart bændum. Hægt væri að nefna þjóðlendumálið, sem Sjálfstæðisflokkurinn fór með á síðasta kjörtímabili, og við framsóknarmenn (Gripið fram í.) reyndum að vinda ofan af en tókst ekki í samstarfi við sjálfstæðismenn. Nú sé ég að Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) reynir að grípa fram í enda eru þessar sósíalísku hugmyndir sjálfstæðismanna í þjóðlendumálum í takt við (Forseti hringir.) hugmyndir vinstri grænna.