135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:48]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri spurninguna þá liggur fyrir samningur nú þegar milli ríkisins og Spalar um að að tilteknum tíma liðnum eignist ríkissjóður þessi göng. Það liggur fyrir og er ekkert nýtt. Heimildin sem lagt er til að veita í fjárlögin er um að ríkið semji við Spöl um að þetta gerist fyrr. Ég held að það breyti engu um forsendurnar. Þetta er bara tilfærsla í tíma og ég á ekki von á því að það verði harðar samningaviðræður, sérstaklega í ljósi þess að ríkið á eftir því sem ég veit best dálítið í fyrirtækinu.

Varðandi seinni spurninguna, um hvort þetta sé þensluhvetjandi þá er svarið: Nei, það er það ekki. Það er ekki verið að stofna til framkvæmda, ekki verið að stofna til eyðslu. Málið snýst um að færa til peninga sem yrðu afgangspeningar í ríkissjóði. Það hefur verið upplýst að áformaður hagnaður á ríkissjóði sé tugir milljarða. Þeir færast úr ríkissjóði til þess sem á skuldirnar í dag þannig að það yrði engin breyting í efnahagsstærðum.