135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og upplýsingar. Ég held að ástæða sé til til að við förum nokkuð vel yfir þessi mál og áttum okkur á því hvort við erum að fara að takast hér á við verulega breyttan veruleika hvað þetta snertir og þá væntanlega á grundvelli þessa dóms, að minnsta kosti á þessu sviði mála, ef svo er að í kjölfar dóms Evrópudómstólsins verði þess að vænta að hér eftir verði allar tilskipanir sem eru á þessu sviði svona úr garði gerðar. Svokölluð allsherjarsamræming þannig að okkur verði beinlínis bannað að hafa í neinum tilvikum ákvæði hjá okkur sem ganga lengra í þágu neytenda.

Ég er nú sérstaklega að taka þetta upp vegna þess að ég held að það hafi verið vanmetið hér í umræðunni hversu afdrifaríkt það kann að reynast á næstu árum í þessum samskiptum öllum það sem Evrópudómstóllinn er að gera. Tökum aftur Vaxholm-dæmið þar sem hann dæmir að lettnesku fyrirtæki skuli heimilt að borga starfsmönnum sem vinna í Svíþjóð á grundvelli kjarasamninga úr heimalandinu en þurfi ekki að virða „kollektífu“ samningana sænsku.

Þá segja menn hér uppi á Íslandi og hrósa happi: Þetta er allt í lagi hjá okkur af því að í íslenskum lögum eru lágmarkslaun í kjarasamningum. Þeir tryggja að í umsömdum kjarasamningum eru að lögum lágmarkskjör á Íslandi. Gott og vel. En hvað gerist nú ef einhver kærir til þessa sama Evrópudómstóls og segir að á Íslandi séu í gildi lög sem gangi ekki gagnvart Evrópuréttinum? Við viljum fá að gera þetta eins og lettnesku verktakarnir í Svíþjóð, borga samkvæmt portúgölskum eða pólskum samningum mönnum sem við erum með hér í verkefnum á Íslandi.

Þá gætum við fengið það í bakið að við neyddumst til að breyta þessu á grundvelli réttarþróunar sem Evrópudómstóllinn er að knýja fram. (Forseti hringir.) Hér eru því mjög stórir hlutir á ferð sem ég tel að við þurfum að skoða rækilega og ég endurtek að mér sýnist ástæða til að utanríkismálanefnd Alþingis fari einnig ofan í saumana á þessu.