135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:58]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil nú þakka þær yfirlýsingar sem hér hafa komið fram af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Það er alveg einkennilegt að ég hafi þurft að kalla þetta fram hér á hv. Alþingi, að þetta skuli aldrei hafa getað komið fram í umræðunni þar sem samfylkingarþingmenn og ráðherrar hafa verið ansi duglegir að tjá sig í fjölmiðlum um ýmis mál. Þá hefur einhverra hluta vegna alveg verið ómögulegt að heyra eða að átta sig á því að þetta væri þeirra stefna í sambandi við kjaramál kennara, fyrr en núna á þessum degi og auðvitað lýsi ég ánægju með það.

En það versta við þetta mál er að það er ekki hægt að líta svo á að þessi orð hafi mikið gildi og í raun má segja að þau falli að verulegu leyti dauð niður miðað við þau orð sem hæstv. fjármálaráðherra hafði hér uppi á hv. Alþingi bara fyrir nokkrum dögum en þá sagði hann um orð hæstv. menntamálaráðherra:

Hins vegar er ekki hægt að líta svo á að sjónarmið menntamálaráðherra séu sjónarmið ríkisstjórnarinnar varðandi kjarasamninga sem nú standa fyrir dyrum. Það er hlutverk fjármálaráðherrans að sinna því fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Svo mörg voru þau orð.

En ég ætla bara rétt að vona það að miðað við hin digurbarkalegu orð og yfirlýsingar sem hér hafa verið viðhafðar af hálfu samfylkingarmanna þá láti þeir þessi orð ekki bara falla hér í þingsal heldur vinni að framgangi málsins við það borð þar sem stórar ákvarðanir verða teknar á næstunni í sambandi við kjaramál kennara.