135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

tilkynning frá ríkisstjórninni.

[13:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þau ánægjulegu tíðindi bárust síðastliðinn sunnudag að aðilar hins almenna vinnumarkaðar hefðu náð saman um nýja kjarasamninga til loka nóvembermánaðar árið 2010. Því ber að fagna hversu aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt mikla ábyrgð í störfum sínum að þessu sinni og að þeir skuli án átaka ná niðurstöðu sem er á þann veg sem raun ber vitni í þessum samningum. Ég fagna því mjög og tel að aðilar vinnumarkaðarins eigi heiður skilinn fyrir að hafa í þessum samningum beint sjónum sínum fyrst og fremst að þeim hópum launþega sem á undanförnum árum hafa ekki notið launaskriðs og þar af leiðandi setið eftir gagnvart þeim hópum launþega sem hafa getað bætt stöðu sína í gegnum launaskrið. Með öðrum orðum hafa aðilar vinnumarkaðarins komið sér saman um að bæta með raunhæfum hætti kjör þeirra launamanna sem lakast hafa haft þau fyrir. Miðað við það sem fram er komið um þessa samninga sé ég ekki betur en samningsaðilarnir hafi fundið aðferð sem á að geta náð þeim markmiðum. Ég óska þeim til hamingju með það og vona að samningarnir hljóti brautargengi hjá þeim sem nú þarf að bera þá undir.

Báðir samningsaðilar, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, leituðu til ríkisstjórnarinnar um nokkur atriði sem að þeirra félagsmönnum sneru og ríkisstjórnin hafði aðstöðu til að hafa áhrif á. Niðurstaða þeirra samtala varð sú að gefin var út yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar síðdegis sunnudaginn 17. febrúar þar sem lýst er á tveimur blaðsíðum hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að greiða fyrir því að þessir samningar gætu náðst eins og þeir gerðu og einnig fyrir því að markmið samningsaðilanna nái fram að ganga.

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu unnið að því og velt því mikið fyrir sér með hvaða hætti hún gæti komið að þessum málum þannig að uppbyggilegt væri. Þó að hún hafi í þessum sal setið undir ásökunum bæði um sinnuleysi og aðgerðaleysi þá hefur það sýnt sig að þær ásakanir áttu ekki við rök að styðjast. Ríkisstjórnin hefur í 8 liðum útlistað hvaða atriðum hún vill beita sér fyrir og þar eru jafnframt ýmsir undirliðir.

Ég vil nú, virðulegi forseti, rekja í nokkru helstu atriði yfirlýsingarinnar. Ég hyggst hvorki lesa hana upp frá orði til orðs né nefna öll atriði en ég tel eðlilegt að Alþingi sé gerð grein fyrir helstu atriðunum sem hér er að finna og síðan mun verða unnið nánar í þeim málum á vettvangi þingsins þegar lagafrumvörp sem þessu tilheyra koma hingað til meðferðar.

Í skattamálum er niðurstaðan sú að persónuafsláttur hækki um 7 þús. kr. umfram verðlagsbreytingar á næstu þremur árum, þ.e. frá og með áramótum 2009. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50% á þessu og næsta ári, bæði hjá einstaklingum og hjónum, og tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verða jafnframt lækkuð. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir aðgerðum til lækkunar vöruverðs, einkum á matvælum, með því að skoða sérstaklega hvort grundvöllur er fyrir frekari lækkunum á tollum og vörugjöldum.

Tekjuskattur fyrirtækja verður lækkaður úr 18% í 15% frá og með tekjuárinu 2008 sem kemur til framkvæmda á álagningarárinu 2009. Sá misskilningur eða rangtúlkun hefur komið fram í þessari umræðu að þessi tiltekna lækkun skatta komi til framkvæmda á þessu ári. Það er auðvitað ekki svo vegna þess að tekjuskattur fyrirtækja er lagður á eftir á og lækkunin mun koma til framkvæmda við álagningu sem fer fram í október 2009. Fyrr er ekki hægt að koma þessari breytingu í kring.

Í kaflanum um húsnæðismál segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að stefnumótun í húsnæðismálum þar sem skyldur hins opinbera verða skilgreindar og verka- og kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga verður endurskoðuð með jafnræði milli búsetuforma og einstaklingsbundinn stuðning að leiðarljósi. Jafnframt mun ríkisstjórnin taka til endurskoðunar fyrirkomulag vaxtabóta og húsaleigubóta í samráði við aðila vinnumarkaðarins og fleiri.“

Hér er um að ræða málefni sem oft hefur verið rætt í sölum Alþingis og sú spurning vaknar hvort rétt sé til frambúðar að sameina kerfi vaxtabóta og húsaleigubóta. Það er einn möguleikinn sem er til athugunar. En húsaleigubætur munu hækka samkvæmt yfirlýsingunni og verða að hámarki 46 þús. kr. í stað 31 þús. kr. og með sérstökum húsaleigubótum geta þessar bætur farið samtals í 70 þús. kr. á mánuði í stað 50 þús. kr. áður.

Lánsvilyrðum vegna félagslegra leiguíbúða verður fjölgað í 750 í fjögur ár frá og með næsta ári. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta munu hækka um 35% á þessu ári og ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign. Enn fremur verður komið á húsnæðissparnaðarkerfi með skattfrádrætti til að hvetja til sparnaðar hjá yngra fólki.

Síðan er vikið að atvinnuleysisbótum og bótum almannatrygginga en því næst fjallað sérstaklega um hinar fyrirhuguðu áfallatryggingar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að að undanförnu og munu, ef samkomulag tekst, leiða til þess að stofnaður verði nýr sjóður, svokallaður endurhæfingarsjóður. Það er fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar, ef þetta nær fram að ganga, að ríkisstjórnin og ríkissjóður leggi til hans einn þriðja á móti því sem atvinnulífið og lífeyrissjóðirnir munu gera. Talið er að breyting af þessu tagi geti haft í för með sér verulegan sparnað í örorkutryggingum hjá ríkinu, Tryggingastofnun ríkisins, vegna þess að hugmyndin með þessu er sú að hjálpa öryrkjum við að komast á nýjan leik út á vinnumarkaðinn eins og hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra.

Í 6. lið yfirlýsingarinnar er fjallað um starfsmenntamál og segir þar að stefnt verði að því að eigi fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði verði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020. Þetta er mjög virðingarvert markmið sem við hljótum öll að reyna að stefna að og síðan er vikið að framlögum til símenntunar og fullorðinsfræðslu sem verða aukin í jöfnum framlögum um 300 millj. kr. á næstu tveimur árum.

Við munum loks skipa starfshóp með aðild aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að starfsmenn með lögheimili hér á landi, sem eru að störfum erlendis fyrir dótturfyrirtæki íslenskra fyrirtækja, geti viðhaldið réttindum sínum í íslenska velferðarkerfinu. Einnig eru ráðgerðar sérstakar breytingar á skaðabótalögum eins og nánar er tiltekið í þessari yfirlýsingu.

Ég hef nú, virðulegi forseti, rakið meginefni yfirlýsingarinnar frá því á sunnudaginn var. Ég vil nota tækifærið og þakka aðilum vinnumarkaðarins, Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, fyrir mjög gott samstarf í þessu máli. Þegar menn setjast niður með verkefni sem þetta fá aðilar aldrei allar sínar óskir eða kröfur uppfylltar, það er þekkt staðreynd í málum af þessu tagi, en ég tel að við höfum komið til móts við það helsta í kröfugerð þessara aðila á hendur ríkinu og í verulegum mæli fara þau atriði saman við það sem lesa má um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og við hefðum hvort eð er viljað beita okkur fyrir á kjörtímabilinu. En aðalatriði og kjarni þessa máls er auðvitað sá sem ég gat um í upphafi að hér er verið að gera mjög ábyrga kjarasamninga að mínum dómi. Þeir koma að vísu misjafnlega niður á atvinnurekstrinum í landinu, það fer eftir atvinnugreinum, jafnvel mismunandi milli fyrirtækja eftir því hversu mikið fyrirtæki hafa vikið frá hinu formlega taxtakerfi í launagreiðslum og þar fram eftir götunum.

Það er líka ljóst að hugsanlegt er að í þeim mæli sem fyrirtæki á landsbyggðinni hafa stundað launagreiðslur í meira samræmi við taxtabreytingar þá mun þessi nýi samningur verða þyngri fyrir þau fyrirtæki. Við gerum okkur grein fyrir þessu en vinnuveitendur, atvinnurekendur sem hafa staðið að þessum samningi, gera sér grein fyrir því líka og hafa talið að þrátt fyrir það væri samningurinn meira en réttlætanlegur út frá þeirra sjónarmiðum.

Ég ítreka svo að í upphafsmálsgrein yfirlýsingarinnar kemur fram sameiginlegt hagsmunamál og sameiginlegt markmið aðila á vinnumarkaði og ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stöðugleiki í efnahagsmálum er meginmarkmið ríkisstjórnarinnar enda stuðlar hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Við núverandi aðstæður er afar mikilvægt að sköpuð séu skilyrði fyrir því að vaxtastig geti lækkað. Kjarasamningar til þriggja ára, sem grundvallast á hóflegum kauphækkunum og verulegri hækkun lægstu launa, stuðla í senn að auknum jöfnuði og jafnvægi í efnahagsmálum.“

Það er á þessum grundvelli sem ríkisstjórnin leggur fram yfirlýsingu sína sem ég hef nú greint Alþingi frá í aðalatriðum.