135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

framhaldsskólar.

53. mál
[15:54]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka tillöguflytjendum fyrir tillögur þeirra og ekki hvað síst fyrir að vekja athygli á stefnu Samfylkingarinnar í málflutningi sínum hvað varðar gjaldfrjálsan framhaldsskóla og þá einlægu ósk samfylkingarfólks að jafnrétti sé til náms og jafnt aðgengi að skólum og jöfn tækifæri fyrir landsmenn til að stunda nám.

Þessarar áherslu gætir í stefnuyfirlýsingunni þó að útfærslan sé ekki mjög náin þar og það er líka ánægjulegt að fylgjast með því að þetta kemur inn í kjarasamningana núna, þetta kemur inn þar sem metnaðarfullt markmið í sambandi við það að auka menntun í landinu. En þetta hefur líka komið inn í menntafrumvörpin, þ.e. í framhaldsskólafrumvarpinu eru ákvæði og það má deila um hvort þar sé gengið nógu langt. Mig langar einmitt þess vegna að spyrja hvort hv. framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, geti skilgreint fyrir okkur hvað átt er við með námsgögnum. Það er akkúrat það sem gera þarf í raunveruleikanum. Eru t.d. tölvur innifaldar í þeim og stærri hlutir? Það eru dæmi um það í skólum nú þegar, m.a. útvegar Menntaskóli Borgarfjarðar nemendum tölvur.

Annað sem ástæða er til að vekja athygli á og þarf að fá umræðu um er að skólameistarar hafa talað fyrir lágmarksskólagjöldum, þ.e. að þau séu eingöngu fyrir umsýslukostnaði. Það er vegna þess innritunarforms sem er í sambandi við framhaldsskóla, þeir telja eðlilegt að þar sé eitthvert lágmarksgjald sem er nánast bara táknrænt þannig að menn geti skráð sig með formlegum hætti, og það sé til að halda utan um það kerfi. Útiloka tillöguflytjendur um það?

Og í þriðja lagi það sem hefur komið til álita sem eru ýmis valverkefni í skólum. Ef menn smíða t.d. hluti eins og hátalara eða gera einhverja stærri hluti er gert ráð fyrir því í framhaldsskólafrumvarpinu að nemendur greiði fyrir slíkt, (Forseti hringir.) ef menn búa til einhverja hluti sem þeir fara með úr skólunum, en að skylduverkefni verði greidd. Útiloka menn að það verði greitt einnig?