135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:40]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðu þeirra Skagamanna (Gripið fram í.) og hv. 1. flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu, Ellerts B. Schrams, um tillögu til þingsályktunar um íþróttakennslu í skólum. Erindi mitt hingað er fyrst og fremst að taka heils hugar undir bæði tillögugreinina sem slíka og þær röksemdir sem flutningsmenn hafa borið fram.

Enginn vafi er á því að hreyfingarleysi ógnar heilsu, ekki bara hinna fullorðnu hér á landi heldur líka barna í vaxandi mæli. Það er mjög mikilvægt að leitað sé allra leiða og að sé heildstætt tekið á því í skólakerfinu, á heimilum og almennt á vegum heilsugæslu í landinu, að lýðheilsumarkmiðum verði náð, þ.e. með aukinni hreyfingu og bættu mataræði. Þetta verður að haldast í hendur. Burtu með ruslfæðið og burtu með kyrrsetuna.

Þetta umræðuefni var einmitt til umfjöllunar í hv. heilbrigðisnefnd í morgun og það vill svo til að fyrir þinginu eru ýmsar tillögur þessu tengdar sem heilbrigðisnefnd er að fjalla um, m.a. tillögu um bann við auglýsingum á ruslfæði eða óhollum mat í tengslum við barnaefni í sjónvarpi. En einnig liggur þar fyrir tillaga um ávísanir á hreyfiseðla, rétt eins og vísað er á lyf við sjúkdómum eða kvillum.

Það er alveg ljóst að skólarnir gegna hér lykilhlutverki vegna þess að þar eru ekki bara allir krakkarnir saman komnir, þar er líka hópsálin. Þar er hægt að setja góðar fyrirmyndir og hægt að kenna börnum hversu mikið þau hagnast á því sjálf að bæta mataræði sitt og auka hreyfinguna. Það er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi áðan, að þegar búið er að setja inn á námskrá og stundatöflu íþróttakennslu, að íþróttakennslan fari fram og þeir sem hún er ætluð njóti hennar og taki þátt í henni. Það verður auðvitað að segjast eins og er að það er mjög einstaklingsbundið hvernig börn á öllum aldri upplifa sig í íþróttum. Það hentar ekki öllum að taka þátt í boltaíþróttum eða keppnisíþróttum. Í skólakerfinu þarf ef til vill að vera miklu einstaklingsmiðaðri hreyfingar- eða íþróttakennsla en það er kannski eitthvað sem er utan míns sérsviðs. Ég tel að það væri mjög gott ef hægt væri að koma því á að það væri a.m.k. ein stund á dag sem nemendur notuðu til hreyfingar. Hér er lagt til að þetta fari inn í námskrá við endurskoðun sem nú stendur yfir og það er ágætishugmynd. Þar er fjallað um grunnskólann eingöngu. Mig langar til að nefna að í framhaldsskólum hefur jafnvel verið enn verr búið að íþróttakennslu og hreyfingu en í grunnskólum. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi nokkrar ástæður þess, þ.e. að íþróttahúsin, þá sjaldan að góð íþróttahús eru til staðar við skólana, eru jafnframt notuð til annars íþróttastarfs og farið að leigja þau út. Þau eru eftirsótt, meira að segja í hádeginu og snemma á morgnana, og notkunin á þeim nær stundum inn í starfstíma skólans. Því miður er það svo að húsbyggingar yfir íþróttakennslu á framhaldsskólastigi hafa oft verið síðustu byggingarnar sem reistar hafa verið. Við þekkjum það vel úr 101 og umhverfi Alþingishússins þegar nemendur í Kvennaskólanum í Reykjavík og Menntaskólanum í Reykjavík eru í sínum íþróttatímum, þá hlaupa þau venjulega í kringum Tjörnina því að það er ekki best búið að íþróttaaðstöðu í þessum gömlu skólum.

Það er auðvitað mjög ólíkt því sem þeir sem hafa mjög mikinn áhuga á líkamsrækt kynnast þegar þeir fara inn í þessar fínu, stóru stöðvar sem eru vel búnar alls konar tækjum og tólum sem mörgum líkar vel að nýta til hreyfingar og maður skyldi ekki vanmeta það. Nú er verið að gera tilraun í Reykjavíkurborg með frístundakort þar sem unglingar á framhaldsskólastigi eða börn á framhaldsskólastigi — því að við skulum athuga að við erum búin að breyta viðmiðuninni og þetta er upp í 18 ár og þá eru krakkarnir komnir í framhaldsskólann — þar sem frístundakortið má nota til að fara í líkamsræktarstöð. Ég tel að þetta sé mjög virðingarverð og góð tilraun og hygg að gott væri að reyna að taka aðeins einstaklingsmiðaðri nálgun á íþróttakennsluna almennt og eins að horfa á æfingatækin sem margir eru sólgnir í að nota.

Ég fagna því sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi síðast í ræðu sinni varðandi átraskanir. Það er mjög mikilvægt í allri umræðu um hreyfingu og offitu ungra sem aldinna — og barna, sérstaklega telpna — að hafa varann á gagnvart þeirri staðalímynd sem dregin er upp í fjölmiðlum og í nærsamfélaginu af hinum hrausta unga manni og hinni hraustu, myndarlegu ungu konu. Þessi staðalímynd getur nefnilega breyst í andhverfu sína og það eru mjög alvarlegar afleiðingar sem anorexía og búlimía hafa á heilsu barna og unglinga.

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og þessari þingsályktunartillögu og vona svo sannarlega að hún nái fram að ganga.