135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

227. mál
[18:33]
Hlusta

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna en 1. flutningsmaður þessa frumvarps er hv. varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Auður Lilja Erlingsdóttir. Meðflutningsmenn eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.

Flest erum við líklega sammála um að menntun er undirstaða velferðar og framfara. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu stuðlar aukin menntun að betra mannlífi og betra samfélagi og helst í hendur við hagvöxt. Það skiptir því máli að sem flestir eigi kost á að mennta sig og geti stundað það nám sem hæfileikar, geta og áhugi segja til um, óháð efnahag, félagslegum þáttum eða stöðu að öðru leyti. Það er ljóst að stjórnvöld geta stuðlað að aukinni menntun með hvatningu og með því að búa skólastarfi gott umhverfi. Þess vegna skiptir miklu að reka öflugan lánasjóð með góðum kjörum fyrir námsmenn. Lánasjóður íslenskra námsmanna er mikilvægur sjóður fyrir menntun í landinu og á að gegna því hlutverki að gera sem flestum kleift að stunda nám og jafna aðstöðu manna.

En svo við snúum okkur beint að þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til þá hljóðar 1. gr. svo, að við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. sem orðast svo: Fullt námslán miðast að jafnaði við 100% nám samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Námslán skerðist hlutfallslega í samræmi við námsframvindu allt að 50%.

Með öðrum orðum er lagt til að námsmenn fái notið aukins sveigjanleika á þann veg að 50% lán fáist fyrir 50% námsframvindu.

Einnig er lögð til breyting á 6. gr. laganna, að 5. mgr. orðist svo: Námsmenn sem fá lán úr sjóðnum skulu undirrita skuldabréf við lántöku. 6. og 7. mgr. falli hins vegar brott.

Hér er sem sagt lagt til að krafa um ábyrgðarmenn á lánum verði felld brott úr lögunum enda samræmist hún ekki 1. gr. laganna um jafnrétti til náms. Eins og segir í athugasemdum þeim sem fylgja einstökum greinum frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í ríku samfélagi á ekki að líðast að fólk þurfi að hverfa frá áætlunum um nám vegna þess að það hefur ekki ábyrgðarmenn sem lánasjóðurinn tekur gilda.“

3. og 4. gr. frumvarpsins leggja til að endurgreiðsla af námslánum breytist á þann hátt að tveimur árum eftir að námi lýkur hefji námsmaður að greiða tekjutengdar afborganir en þurfi ekki að borga fasta árlega afborgun fyrr en fjórum árum eftir að námi lýkur. Á fyrstu árunum eftir að námi lýkur er algengt að fólk sé að koma sér þaki yfir höfuðið og stofna fjölskyldu. Þessi breyting léttir greiðslubyrði af námslánunum fyrstu árin.

5. gr. gerir svo ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Flutningsmenn þessa frumvarps leggja einnig fram þingsályktunartillögu sem mælt verður fyrir hér á eftir um að gerð verði úttekt á kjörum námsmanna á Íslandi þar sem m.a. verði kannaðar aðstæður námsmanna sem eiga við veikindi að stríða og staða námsmanna í fæðingarorlofi auk þess sem gerð verði ný könnun á kjörum námsmanna til að byggja framfærslugrunn námslána á. Með þessum aðgerðum telja flutningsmenn að námsmönnum verði sköpuð betri kjör, námslánakerfið verði sveigjanlegra og lögin um lánasjóðinn réttlátari.

Ég treysti því að mál þetta hljóti góðar undirtektir enda er um mikið hagsmunamál fyrir námsmenn að ræða.