135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

flug milli Vestmannaeyja og lands.

355. mál
[14:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. Bjarni Harðarson sé ekki að mælast til að fella niður þá starfsemi að styrkja flug til Vestmannaeyja meðan verið er að byggja það upp. Hann gaf það í skyn en ég vona að svo sé ekki.

Þessi spurning byggist á því að það eru mörg dæmi þess að Flugfélag Íslands hefur fellt niður flug löngu fyrir áætlaðan brottfarartíma vegna þess að menn hafa haldið að það yrði ófært. Þessi dæmi eru klár. Það er miður t.d. þegar flug sem á að vera korter fyrir fimm er fellt niður klukkan hálffjögur og svo er orðið fært upp úr klukkan fjögur en það er samt ekkert flug. Flugfélag Íslands fær greiddar 70 þúsund kr. fyrir það að fljúga ekki til Vestmannaeyja þann dag. Þetta snýst um það að ákveðið aðhald sé í því að þessi þjónusta sé nýtt til fulls og af skynsemi og menn láti ekki liggja á milli hluta hjá hinu ágæta fyrirtæki Flugfélagi Íslands að sinna þessari skyldu sem flugfélagið hefur tekið á sig með samningum sem hafa verið gerðir við það. Þetta eru dæmin: Á undanförnum mánuðum hefur það komið þó nokkrum sinnum fyrir að flug hefur verið fellt niður löngu áður en kom að áætluðum brottfarartíma. Ég man að í einu tilviki var gefin sú skýring að flugi mætti ekki seinka um 20 mínútur til Vestmannaeyja því að það mundi raska flugi til annars landshluta. Það er náttúrlega ekki boðlegt að hafa slíkt í dæminu að ekki geti verið eitthvert svigrúm sérstaklega til staðar sem er kannski meira háður veðri og vindum í flugi en aðrir staðir á landinu.