135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

hækkun á bensíni og dísilolíu.

[11:00]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég svaraði því alveg skýrt að ég tel allar líkur á því að hér sé ekki á ferðinni sú tekjuaukning sem hv. þingmaður gat um. En Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem við höfum verið í mjög góðu samstarfi við í mörg ár, heldur því fram að þarna sé tekjuaukning hvað varðar virðisaukaskattinn. Um það eru menn ekki sammála.

Ég vil svo bæta því við vegna þess að tekjuöflun og gjaldtaka á eldsneyti er umdeilt mál og erfitt að gera öllum til hæfis í því efni eins og við þekkjum, að sú gjaldtaka er til heildarendurskoðunar á vegum fjármálaráðuneytisins þar sem menn munu fara yfir öll þau sjónarmið sem uppi eru um þungaskattinn sem lagður er á þyngstu bílana, olíugjaldið og aðra tekjuöflun sem þarna kemur við sögu. Þar togast auðvitað á ýmis sjónarmið. Það er mikið talað um það núna að það þurfi að lækka flutningskostnaðinn úti á landi, sérstaklega í tengslum við kjarasamninga. Svo eru aðrir sem halda því fram að bílarnir eigi að borga í samræmi við það hvað þeir fara illa með vegina og spæna upp malbik og þess háttar. Þarna þarf því að finna jafnvægi.