135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[12:00]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingu á frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof sem voru sett árið 2000 og eru, eins og fram hefur komið, eitt stærsta skref í átt til jafnréttismála og málefna fjölskyldunnar hér á landi, snerta réttindi barns til að njóta samvista við móður og föður og líka réttindi feðra sem voru bætt mjög þar sem foreldraorlofinu var deilt niður á bæði foreldrin skilyrt.

Við hljótum að stefna að því að börn hafi báða foreldra sína sem fyrirmynd og lögin sem voru sett árið 2000 miðuðu sérstaklega að því. Þau hafa hlotið lof um allan heim sem ein framsæknasta lagasetning á þessu sviði. Margar þjóðir vildu geta stigið þau skref sem við Íslendingar höfum gert en hafa ekki haft ráð á því. Því er hér um mikið fyrirmyndarmál að ræða en í þessu frumvarpi eru lagðar til margar efnislegar breytingartillögur.

Það segir sig sjálft að þegar jafnumfangsmikil lög eru samþykkt þarf að bæta ýmislegt eftir því sem tímanum vindur fram. Hér er verið að leggja til nokkrar breytingar sem m.a. munu bæta stöðu nokkurra hópa og er það vel. Frumvarpið mun því leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð og er ég sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hér áðan að það er nauðsynlegt að félags- og tryggingamálanefnd fari vandlega yfir kostnaðarmat svo að ekkert fari á milli mála og einnig yfir þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Ég ætlaði ekki að halda mjög langa ræðu um þetta mál en mig langar að vekja athygli á því að mér sýnist að tilgangur breytinganna sé m.a. að bæta stöðu ungs fólks sem er að koma úr námi. Það mun fá hærri orlofsgreiðslur eftir breytingarnar en áður. Það er að minnsta kosti markmiðið og fagna ég því sérstaklega. Við þekkjum það úr umræðunni að það er ekkert grín fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið í dag og stofna til fjölskyldu. Gríðarlega hár kostnaður fylgir því og því er mikilvægt að koma til móts við þann hóp sem er að koma sér upp fjölskyldu og þaki yfir höfuðið.

Mig langar að ræða um annað sem tekið er á í frumvarpinu en það eru málefni forsjárlausra foreldra, að þeir fái nú réttindi til að njóta fæðingarstyrks sem þeir höfðu ekki áður. Það er að mínu mati mjög jákvætt skref í þá átt að auka réttindi þeirra og rétt barnsins til að eiga á sínu fyrsta ári samskipti við bæði föður og móður. Ég tel því að hér sé um að ræða skref í þá átt að bæta stöðu forsjárlausra foreldra hvað þetta varðar og vil lýsa mikilli ánægju með það.

Það hefði líka verið mjög þarft í þessari umræðu, ég hef nú reyndar ekki trú á því miðað við orð ráðherra að það komi fram, að fá það upp í hvaða áföngum ríkisstjórnin ætlar sér að lengja fæðingarorlofið eins og kveðið er á um í ríkisstjórnarsáttmálanum. Það lá mjög mikið á að afgreiða það á síðastliðnu sumri hér á þingi, að staðfesta að af því yrði, þannig að það hefði verið mjög gott fyrir allt og alla að fá að sjá í hvaða skrefum ríkisstjórnin ætlar að taka lengingu á fæðingarorlofi. Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vék hér að áðan þarf að brúa þar ákveðið bil á milli níunda og tólfta mánaðarins og hún fór mjög vel yfir þroskaferil barna í því samhengi sem var mjög gagnlegt.

Ég vil heilt yfir lýsa ánægju minni með þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til. Ég geri samt ráð fyrir því að mikil vinna muni fara fram í hv. félags- og tryggingamálanefnd um þetta málefni enda er um mjög stórt mál að ræða. En heilt yfir fagna ég þeim breytingartillögum sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram á frumvarpi til laga um breytingu á fæðingar- og foreldraorlofi, löggjöf sem er ein sú besta á sínu sviði í heiminum.