135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[16:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það var sannarlega mjög mikið talað um skipan Jafnréttisráðs í seinni yfirferð nefndarinnar um málið. Til að halda til haga afstöðu minni í þeim efnum þó að ég hafi verið alveg sátt við tillögu nefndarinnar sem Guðrún Erlendsdóttir stýrði á sínum tíma, að hafa Jafnréttisráð stórt, enda væri það ráðgjafarráð fyrir þessa mikilvægu stofnun Jafnréttisstofu sem hv. þingmaður lýsti hvað sýsla ætti með, þá var ég samt sem áður ekki ósatt við þá málamiðlunartillögu sem ráðherrann kom með þegar hann lagði til að átta manns yrðu í ráðinu. Síðan ráðherrann kom með þá tillögu í frumvarpinu hafa hlutirnir breyst, þremur fulltrúum hefur verið bætt við að frumkvæði félags- og tryggingamálanefndar, þ.e. einum frá Félagi um fjölskyldujafnrétti, sem hét áður Félag ábyrgra feðra, einum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og í þriðja lagi fær þríeykið Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands tvo fulltrúa í stað eins sem viðkomandi aðilar áttu að skipta á milli sín. Það er vissulega búið að fjölga um þessa þrjá fulltrúa og ég geri ekki ágreining um það úr því að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum fór inn á síðari stigum. En ég setti mig ekki upp á móti tillögu ráðherrans í byrjun þannig að það sé alveg á hreinu.

Það að pólitíkin sé list hins mögulega er auðvitað alveg rétt og hvað varðar hið mikilvæga hlutverk Jafnréttisstofu þá lít ég svo á að fjölskipað stjórnvald, eins og Jafnréttisráð er, skipti í raun verulegu máli fyrir stuðning Jafnréttisstofu og víðsýni hennar að hafa öfluga fulltrúa sér við hlið í Jafnréttisráði og ég held að allir átti sig á að það er eftirsóknarvert að eiga þar sæti, vilji menn leggja sín lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna.