135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Magnússon fór í ræðu sinni nokkrum orðum um ást hæstv. forseta Alþingis á lýðræðinu. Ég ætla ekki að hætta mér út í neinar vangaveltur um það efni að sinni en vil þó segja að frumvarpið sem hann talar fyrir byggir á meirihlutavilja innan Alþingis. Það er hluti af pakka sem stjórnarmeirihlutinn ásamt Framsóknarflokki og Frjálslynda flokknum varð ásáttur um í aðdraganda jólahátíðar eins og menn muna eflaust. Þá vildi hæstv. forseti fyrir engan mun aðskilja kjarabætur, sem svo voru nefndar, til handa þingflokkunum, og einkum stjórnarandstöðunni, frá breytingum á þingskapalögum. Þetta er hluti af þessum pakka sem fluttur er af þeim sem sæti eiga í forsætisnefnd þingsins að undanskilinni hv. þm. Þuríði Backman sem stendur ekki að þessu frumvarpi, eins og kom fram í máli hæstv. forseta. Þetta vildi ég árétta í upphafi orða minna.

Rétt er að spyrja í þessu samhengi hvert sé meginviðfangsefni og hlutverk Alþingis. Það er tvíþætt: Það er annars vegar vinna sem tengist löggjöf, setningu laga, og síðan er það aðhald gagnvart stjórnarmeirihluta og framkvæmdarvaldinu hverju sinni. Hvernig verður það verk best innt af hendi? Jú, með góðri, faglegri aðstoð innan þingsins.

Ég hef jafnan verið talsmaður þess að sú leið sem við ættum að fara væri að leggja höfuðáherslu á að efla nefndasvið Alþingis þannig að þingmenn, hvort sem þeir koma úr stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu, eigi greiðan aðgang að nefndasviðinu um aðstoð við smíði frumvarpa, við að greina frumvörp sem fram koma og annað sem snertir löggjafarstarfið. Það er sú leið sem ég tel heppilegasta.

Varðandi aðstoð við stjórnmálastarfsemina, við stjórnmálaflokka, þá er ég mjög á því máli að hún eigi að vera á félagslegum forsendum, ekki einstaklingsbundnum eins og hér er verið að feta sig í átt að. Eins og fram hefur komið hafa þegar komið fram kröfur um að jafnræði ríki meðal þingmanna hvað þetta snertir. Við heyrðum það í röksemdafærslu síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Magnússonar, og hæstv. forseti Sturla Böðvarsson sagði að búast mætti við því að í framtíðinni yrði þetta réttur allra þingmanna. Finnst okkur það vera gott og eftirsóknarvert? Nei. Sem skattborgari hef ég ekki nokkurn einasta áhuga á að greiða fyrir þjónastarf við þingmenn sem einstaklinga, alls ekki. Ég væri tilbúinn að láta skattfé mitt renna til að efla þingið og þess vegna til að efla stjórnmálastarfsemi í landinu en ekki á þessum forsendum. Þannig að ég tel að við förum inn á afar vafasamar brautir með þessu frumvarpi.

Síðan spyr ég um hitt ... (JM: Skattborgarinn borgar laun til formanns BSRB.) Það vill svo til að formaður BSRB er ekki á neinum launum, þiggur engin laun og hefur ekki gert frá fyrsta degi eftir að hann kom inn á þing í maímánuði árið 1995. (KHG: Skattborgarinn borgar honum laun. Þá er það ...) Þetta var skemmtilegt málefnalegt inngrip frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni sem er að vísu alveg út í hött í þessu samhengi og byggir heldur ekki á neinum staðreyndum. En hafa menn hugleitt hvað þeir eru að gera gagnvart launakerfinu innan húss? Þeirri mismunun sem verið er að innleiða inn í húsið gagnvart starfsmönnum þingsins annars vegar og síðan starfsmönnum þingmanna hins vegar? Finnst mönnum það vera eðlilegt? Ég spyr: Hefur það verið rætt við starfsmannafélagið og hefur stjórn þingsins ákveðið með hvaða hætti hún muni taka á kjaramálum starfsmanna innan húss í kjölfarið? Það er nokkuð sem við sem alþingismenn munum að sjálfsögðu fylgjast með hvernig farið verður með, að hér verði ekki búið til mismununarkerfi, að eitt gildi um herraþjóðina og annað um þá sem henni eiga að þjóna. Hæstv. forseti. Þetta er umræða sem er nú að hefjast og ekki sér fyrir endann á.