135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:40]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka hv. þingmönnum Bjarna Benediktssyni og Illuga Gunnarssyni fyrir góða og yfirgripsmikla grein sem birtist á dögunum í Morgunblaðinu. Ég vil hins vegar taka það fram úr þessum stól að ég held að við þurfum að fara varlega í það ef við ætlum að íhuga að yfirgefa verðbólgumarkmið Seðlabankans, þó að það sé tímabundið, því að verðbólgan er almannaóvinur númer eitt. Lág verðbólga og stöðugleiki, þetta helst í hendur og með því að ná verðbólgunni niður náum við að stuðla að stöðugleika. Við megum ekki upplifa þá tíma sem fyrri kynslóðir þurftu að búa við, verðbólgu sem nær háum hæðum og grefur undan atvinnulífinu.

Við vitum að þenslan hefur verið mjög mikil á Íslandi og í íslensku hagkerfi. Sú þensla er að einhverju leyti enn í gangi. Við sjáum að verðbólguþrýstingur er mikill, verðbólgan er of há. Tæki Seðlabankans til að berjast gegn verðbólgunni er að hækka vexti. Því má alveg deila um það með réttmætum rökum hvort einhver árangur hefur náðst í þeirri baráttu en þetta er hins vegar það stjórntæki sem Seðlabankinn býr yfir.

Ég vil líka taka það fram, af því að mönnum verður tíðrætt um stöðuna á fjármálamarkaðnum, að undirstöður bankanna eru góðar. Ef við skoðum hagnað fjögurra stærstu bankanna á síðasta ári nam hann 155 milljörðum kr. Það mætti reka Landspítalann fimm sinnum fyrir þá upphæð. Heildareignir bankanna voru tólf þúsund milljarðar kr. í lok síðasta árs, eða 20 sinnum meira en það sem íslenska ríkið veltir og um 10 sinnum landsframleiðslan.

Ég tek undir að við þurfum að huga að því að stofna hér rannsóknarmiðstöð í efnahags- og fjármálafræðum og ég held að við ættum að hverfa til fyrri tíma og endurvekja Þjóðhagsstofnun. Ég held að það hafi verið mistök, einfaldlega mistök, að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Það er þörf á slíkri sjálfstæðri stofnun eins og staðan er í dag.