135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

fundarstjórn.

[14:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og þingmenn hafa vafalaust tekið eftir voru engar umræður um þessa fyrirspurn. Ég óskaði eftir því að fá að taka til máls en forseti neitaði því. Væntanlega með skírskotun til þingskapa sem kveða á um það að þingmenn geti gert stuttar athugasemdir áður en fyrirspyrjandi og ráðherra loka umræðunni við fyrirspurnina.

Ég vil nú mælast til þess við forseta að hann gæti þess að þingmönnum gefist kostur á því að biðja um orðið áður en hann gefur fyrirspyrjanda orðið í síðara sinn. Þannig háttaði til í þessu tilviki að ráðherra var beðinn um viðamikil svör og ég var að skrifa þau niður í gríð og erg eftir því sem ráðherra las þau upp. Þegar hann hafði lokið máli sínu gaf forseti fyrirspyrjanda strax orðið. Þar með var enginn kostur á að gefa forseta merki um að ég vildi taka til máls. Mér finnst óþarfi að láta hlutina ganga þannig. Ég vil mælast til þess við forseta að að áður en fyrirspyrjandi fær orðið í síðara sinn þá gæti hann að því hvort það séu einhverjir þingmenn sem vilji kveða sér hljóðs um fyrirspurnina.