135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[11:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Ég vil byrja á því að segja almennt um frumvarpið að ég tel það jákvætt. Það er tímabært að við skulum fjalla um frumvarp sem tekur á þessum málum í heild sinni og er ég þá að tala bæði um tvíhliða þróunarsamvinnu og líka svokallaða marghliða þróunarsamvinnu, en lögin hafa hingað til aðallega snúist um Þróunarsamvinnustofnun sem hefur sinnt og á að sinna hinni tvíhliða þróunarsamvinnu.

Það er ljóst að viðhorfsbreyting hefur orðið hér á Íslandi gagnvart þessum málum, vakning hefur orðið meðal Íslendinga eins og flestra annarra þjóða. Nú láta íbúar heims sig þróunarmál miklu meiru varða en áður og hafa meiri áhyggjur af stöðu og hag fólks í þróunarríkjum en við höfum áður séð, og það er mjög jákvætt.

Í athugasemdunum kemur fram að þróunarmál séu hinir nýju hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu. Þar eru nefnd mannréttindi og friðsamleg lausn deilumála og einnig fjallað um að þróunarsamvinna sé vaxandi þáttur í utanríkisstefnu okkar og nú stærsti einstaki útgjaldaliður utanríkisráðuneytisins. Það sést því vel af frumvarpinu. Hin seinni ár hafa stjórnvöld líka verið að stórauka framlög okkar til þróunarmála þó að við séum langt frá því að vera komin í höfn.

Það var 1970 sem Sameinuðu þjóðirnar settu þá samþykkt fram að opinber framlög aðildarríkjanna skyldu nema 0,7% af vergum þjóðartekjum. Við erum langt frá því að ná því. Fimm ríki hafa nú þegar náð því markmiði, það eru Danmörk, Lúxemborg, Holland, Noregur og Svíþjóð. Þrjú þessara landa eru norræn ríki, Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Við erum ekki þar á meðal þannig að við ættum að reyna að ná þessu marki sem fyrst. Sex ríki hafa skuldbundið sig til að ná markinu fyrir 2015, og hvaða ríki eru það? Jú, það eru Belgía, Finnland, Frakkland, Írland, Spánn og Bretland, þar er Finnland sem sagt innan borðs. Ísland hefur ekki sett sér það markmið að ná 0,7% á ákveðnu ári þannig að við erum þar á eftir en við höfum sett okkur að ná ákveðnu hlutfalli. Ég vil nefna að á þessu ári munum við ná að setja 0,31% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og stefnt er að því að árið 2009 verði þetta hlutfall 0,35%, það er markmið sem var sett í tíð fyrri ríkisstjórnar. Þegar við höfum náð því hlutfalli, þ.e. árið 2009, verða 4,6 milljarðar settir í þróunarsamvinnu af hendi Íslendinga. Við erum því að fikra okkur í rétta átt, virðulegur forseti, þó að við séum enn talsvert miklir eftirbátar annarra norrænna ríkja.

Hvað varðar þróunarsamvinnu er sérstaklega tilgreint að markmið okkar miðist við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar. Ég vil nefna hér að á sínum tíma, árið 2000, þegar þúsaldarmarkmiðin voru sett í Jóhannesarborg, varð sú er hér stendur þeirrar gæfu aðnjótandi að taka þátt í þeirri vinnu. Þetta eru átta markmið, þau eru mjög metnaðarfull mundi ég segja. Þau snúa aðallega að því að auka aðgengi þeirra sem búa í þróunarríkjunum, þ.e. fátækra, að vatni, að hreinlætisaðstöðu, að heilsugæslu og öðrum slíkum atriðum. Það er alveg ljóst að það er óbærilegt fyrir okkur að horfa upp á að fjöldi barna fellur frá á hverju ári vegna vatnsskorts, vegna skorts á hreinlætisaðstöðu og vegna mengunar í eigin húsakynnum þar sem verið er að brenna eldivið og loftið er svo mengað að börnin þola það ekki. Þetta eru mál sem varða okkur öll og leiða hugann að almennu siðferði og siðfræði. Hin vestrænu ríki og þau ríki sem eru þróuð, eins og maður kallar það innan gæsalappa, hafa verið að vakna til vitundar um að standa sig betur í almennri aðstoð við þau ríki sem hafa setið eftir.

Í þessu sambandi langar mig að nefna tvö atriði. Hvað varðar Kyoto-bókunina taka þróunarlöndin ekki á sig skuldbindingar, ekki er talið réttlætanlegt að þau geri það. Það viðhorf hefur verið almennt að hin auðugu ríki taki á sig skuldbindingar en ekki þróunarríkin, ekki enn sem komið er. Þau munu gera það í framtíðinni en auðugu ríkin munu aðstoða þau við það með betri tækni o.s.frv.

Ég vil líka nefna hér sérstaklega mál sem er nýtt af nálinni. Það er til umfjöllunar hjá velferðarnefnd Norðurlandaráðs og á norrænum vettvangi og var samþykkt fyrir stuttu. Þar var það undirstrikað að norræn ríki ættu að taka frumkvæði að því að samþykktur yrði alþjóðlegur samningur sem fæli í sér að auðug ríki ættu ekki með virkum hætti að ásælast heilbrigðisstarfsmenn frá fátækum ríkjum. Það eru, að því er mér skilst, fleiri læknar frá Benín í Frakklandi en í Benín sjálfu, það eru fleiri heilbrigðisstarfsmenn frá Malaví í Manchester en í Malaví. Hægt er að taka svona dæmi þar sem auðug ríkin hafa lokkað til sín heilbrigðisstarfsmenn annarra ríkja og Ísland gerir þetta líka. Við erum að lokka til okkar heilbrigðisstarfsmenn, reyndar mest frá Norðurlöndunum. Norðurlöndin lokka svo til sín starfsmenn frá Afríku og öðrum svæðum. Ástandið er þannig núna að í sumum þessara þróunarríkja er ekki til nægur mannskapur til að bólusetja ungbörn. Á sama tíma og við erum að sækjast eftir því í gegnum þúsaldarmarkmiðin að vinna gegn ungbarnadauða erum við að lokka til okkar mikilvæga heilbrigðisstarfsmenn sem eru að sinna því í sínu eigin landi, í fátæku ríkjunum.

Við þurfum því að líta okkur nær í þessu og vinna að því að við verðum sjálfbær með heilbrigðisstarfsfólk á innlendum vettvangi, sem er stórt mál. Við þurfum að mennta fleiri hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða o.s.frv., borga þeim mannsæmandi laun hér heima þannig að við þurfum ekki að lokka til okkar heilbrigðisstarfsfólk frá öðrum ríkjum. Þetta er mjög stórt mál, virðulegur forseti.

Í frumvarpinu er líka lögð áhersla á frjáls félagasamtök og sagt að þau vinni óeigingjarnt starf á sviði þróunarmála. Ég vil taka undir það og taka má mörg dæmi hér. Ég ætla einungis að nefna eitt dæmi af því að ræðutíminn er ekki langur, ég ætla að nefna Rótarý-hreyfinguna, sem er alþjóðleg hreyfing. Hún hefur unnið að því að auðvelda aðgengi að vatni í fátækum ríkjum og hefur lyft alveg ótrúlegu grettistaki varðandi það að bólusetja börn við lömunarveiki eða Polio Plus. Er nú svo komið að mjög góður árangur er að nást í því. Ekki er búið að útrýma lömunarveikinni en menn eru að nálgast það takmark þannig að grasrótarsamtök og frjáls félagasamtök leggja geysilega mikið af mörkum, virðulegur forseti, í þessum málum.

Varðandi frumvarpið sjálft er kveðið á um að hæstv. utanríkisráðherra fari með yfirstjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Núgildandi lög eru ekki nægilega skýr hvað varðar ábyrgð ráðherra annars vegar og þingkjörinnar stjórnar Þróunarstofnunar hins vegar og það er eðlilegt að yfirstjórnin og ábyrgðin sé á einni hendi. Miðað við það hvernig frumvarpið er upp sett á að vera 15 manna samstarfsráð sem hægt er að ráðfæra sig við um þróunarmál og þar eiga að vera fagaðilar og aðilar sem koma víðar að úr samfélaginu en nú er. Nú eru þingmenn í þeirri stjórn sem starfar í dag, sem er fámennari. Ég held að það sé ágætishugmynd að hafa víðtækari vettvang til samráðs.

Svo er það spurningin, sem hér hefur verið komið inn á, um það hvort yfirleitt eigi að hafa Þróunarsamvinnustofnun eða hvort hún eigi að fara inn í ráðuneytið. Skiptar skoðanir eru um það atriði. Ég held að við eigum að skoða það mjög vel í utanríkismálanefnd hvað rétt sé að gera en frumvarpið gerir ráð fyrir því að Þróunarsamvinnustofnun vinni áfram og sé þá í tvíhliða starfsemi, marghliða starfsemin eða þróunarsamvinnan sé þá meira á hendi ráðuneytisins. Við það eru kostir og gallar en einnig hafa verið færð rök fyrir því að eðlilegt væri að Þróunarsamvinnustofnun væri hluti af ráðuneytinu, með þeim hætti gæti náðst fram hagræðing og skilvirkni. Það er eðlilegt að við skoðum þetta atriði í utanríkisnefnd þegar málið fer þangað.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. utanríkisráðherra — hann sagði í framsöguræðu sinni: Við erum að horfa til framtíðar. Og það er rétt, við erum að horfa til framtíðar í þessu frumvarpi. Varðandi það markmið að 0,7% af þjóðartekjum fari til þróunarsamvinnu á næstu árum, við stefnum að sjálfsögðu að því, spyr ég: Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér að lögfesta það ákvæði eða setja fram ártal sem við getum miðað við, hvenær við verðum komin upp í það hlutfall, eins og mörg önnur ríki hafa gert? Er eitthvað slíkt í bígerð? Það er eðlilegt að menn fikri sig áfram og setji peningana ekki of hratt inn heldur, maður verður að nýta peningana vel. Kemur samt til greina að setja ártal á það hvenær við náum því marki sem önnur Norðurlönd hafa náð fyrir utan Finnland sem hefur sett sér það markmið að ná því 2015?

Færa má rök fyrir því að aðkoma þingsins ætti að vera meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Reyndar er gert ráð fyrir meiri aðkomu en hefur verið, þannig að það er til bóta, en færa má rök fyrir því að enn meira samráð ætti að vera við þingið, að tekin verði upp umræða hér árlega um þróunarmál. Við setjum það mikla peninga í samvinnuna, þó að þeir séu ekki nægir, og með nokkuð hröðum hætti væri eðlilegt að taka umræðu hér árlega um þau mál.

Ég vil líka vekja athygli á því að það vekur furðu að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að auglýsa þurfi stöðu framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Í eðlilegri og nútímalegri stjórnsýslu eru slíkar stöður yfirleitt auglýstar.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, reglugerðarheimildir eru ansi víðtækar í frumvarpinu. Það er kannski sérstaklega í 11. gr. og 4. gr. sem kveðið er á um það, og ég vil benda á að í greinargerð með 4. gr. segir, með leyfi virðulegs forseta, þetta er á bls. 14 í frumvarpinu:

„Í lokamálsgrein ákvæðisins er svo lagt til að ráðherra setji í reglugerð nánari reglur um hlutverk samstarfsráðsins. Hér er eingöngu um að ræða reglugerðarheimild til setningar svonefndra valdbærnireglna, þ.e. reglna um hrein stjórnsýsluleg atriði varðandi uppbyggingu og verkaskiptingu innan stjórnsýslunnar. Er löggjafinn almennt talinn hafa rúmar heimildir til að framselja lagasetningarvald sitt að þessu leyti.“

Einnig blasir við að í 11. gr. er líka reglugerðarheimild sem er afar víðtæk. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það þarf að skoða sérstaklega reglugerðarheimildina í 11. gr. og athuga hvort hún er of víðtæk eins og hún er sett fram.

Virðulegur forseti. Almennt er það jákvætt að við skulum vera að fjalla hér um nýtt frumvarp sem tekur heildstætt á málunum. Ég sé að hæstv. utanríkisráðherra tekur við keflinu þar sem fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, skildi við það, en hún lagði mjög mikla áherslu á þróunarsamvinnu. Hún lagði líka áherslu á það sem ég sé endurspeglast í greinargerðinni, og það er hlutverk jafnréttis í þróunarsamvinnu og stöðu kvenna. Ég held að allir sem fylgjast með þessum málum viti að fjármunirnir sem fara í þróunarsamvinnu sem beinist að konum nýtast miklu betur en þeir fjármunir sem fara í verk þar sem konur eru ekki áberandi. Þegar menn eru að þjálfa konu og mennta konu eru menn að mennta heila fjölskyldu í leiðinni.