135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:32]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Síst finn ég að því að hv. þingmenn hafi athugasemdir og ábendingar fram að færa um lagafrumvörp. Þvert á móti fagnaði ég þeim góðu undirtektum sem voru við málið í öllum aðalatriðum. Mér fannst það kannski ekki vera meginatriði sem hér var gerð athugasemd við. Hvort sérstök stjórn sé yfir stofnuninni getur ekki flokkast sem neitt meginatriði í því og tiltölulega rík pólitísk sátt er um öll aðalatriðin í þróunarsamvinnunni. Þó verð ég að segja að þegar kemur að friðargæsluliðinu þá undrar mig nokkuð afstaða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar því að oft hefur það verið svo í gegnum tíðina að þegar komið hefur að þeim málum sem lúta að hernaði ýmiss konar og veru hers hér í landi og fangaflugi og öðru slíku, þá höfum við oft og einatt verið samskipa ég og hv. þingmaður. Ég tel að það sé mikið framfaraskref og skipti verulegu máli út frá þeim sjónarmiðum að vista friðargæsluna á forsendum þróunarsamvinnu. Ég upplifi það þannig að það sé pólitískt mikilvægt og það er augljóslega það sjónarmið sem við jafnaðarmenn viljum standa fyrir í pólitíkinni. Ég hélt að það væri sjónarmið sem ætti líka stuðning frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vegna þess að einmitt þess háttar friðargæsla, þ.e. friðargæsla á forsendum þróunarsamvinnu, væri sú sem þau teldu að við Íslendingar ættum að leggja áherslu á.