135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:23]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að lofthjúpurinn hlýtur að vera skilgreindur sem auðlind þegar farið er að selja losunarkvóta, þ.e. heimildir til fyrirtækja til að losa mengunarefni upp í lofthjúpinn. En hann var ekki auðlind í skilningi þess hugtaks sem við öll leggjum í það í dag áður en hægt var að fara að selja þessa kvóta. Þannig að ég átta mig alveg á því að hv. þingmaður hefur alveg rétt fyrir sér í því að það að skapa auð, veraldlegan auð fyrir þjóðir, það er fengið með því að selja aðgang að auðlindum.

Og þá er ég komin að Kárahnjúkavirkjun. Við erum ósammála, ég og hv. þingmaður hvað varðar Kárahnjúkavirkjun. Ég tel að Jökla ósnortin, ósnert, hefði getað skapað auð í þessu landi og að mínu mati jafnvel mun meiri veraldlegan auð en virkjunin gerir, með því að ósnortið land dregur til sín fjöldann allan af ferðamönnum, (Gripið fram í.) fjöldann allan af vísindamönnum, sem upplifa gleði og kyrrð við það að vera í ósnortnum öræfum. Og þá erum við komin að einhverju sem við getum ekki selt.

Ég get ekki selt öræfakyrrðina eða fuglasönginn bara svona yfirleitt yfir búðarborð eins og ég get gert með rafmagnið. En ég tel samt að það sé auður fólginn í því að hafa fuglasönginn og öræfakyrrðina þó svo að ég geti ekki selt það yfir búðarborð eins og hv. þingmaður gerir kröfu um gert sé. (Gripið fram í.)

Já, óbein sala með því að selja ferðamönnum, þess vegna segi ég það. (Gripið fram í.) Auðvitað verðum við hv. þingmaður ekki sammála í andsvörum um þetta mál. En það er ágreiningur um þessi grundvallaratriði sem gerir það að verkum að við höfum verið að takast á um þetta árum saman, hvort sem það hefur verið í auðlindanefndum eða í stjórnarskrárnefndum eða bara í þingsalnum. Þetta frumvarp er eitt af þessum átakamálum. Í því kristallast línurnar, skurðarlínurnar, á milli þeirra sjónarmiða sem kapítalistarnir standa fyrir, Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) og við hin sem viljum að þjóðin geti haft (Forseti hringir.) eignarhald á þessum auðlindum sínum.