135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:48]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingsalurinn er nú ein samfelld vitnastúka um afstöðu þingmanna til mála sem eru til umræðu. Þannig að þingmaðurinn er að gera grein fyrir skoðunum sínum hér í ræðustóli og atkvæðagreiðslu.

Afstaða hans var mjög skýr. Hann er andvígur því meginákvæði frumvarpsins sem hann tók fyrir. Hann taldi að frumvarpið væri þannig úr garði gert að það væri efnahagslegur skaði fyrir þjóðfélagið að hafa það eins og það er og hann fór fram á að ráðherra breytti málinu eða þingið í meðförum sínum. Þannig að ég get ekki annað en ályktað sem svo að hv. þingmaður sé andvígur frumvarpinu.

Þá kemst ég að þeirri niðurstöðu, virðulegi forseti, að Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist að jafna ágreining í eigin þingflokki til þessa mikilvæga máls sem er eitt af grundvallarmálunum sem ríkisstjórnin þarf að glíma við á þessu kjörtímabili. Ég sé því ekki annað en að enn sé logandi ágreiningur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) um þetta frumvarp.