135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[15:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ráðstöfunarfé svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi er uppurið og fjölskyldur fatlaðra barna fá því ekki endurnýjaða samninga sína um þjónustu. Svona hljóðaði upphaf fréttar í Ríkisútvarpinu síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem fjallað var um málefni svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi og málefni fatlaðra barna þar. Síðan hefur verið fjallað um þetta mál í nokkrum fréttatímum Ríkisútvarpsins nú um helgina.

Það kemur fram í þessari umfjöllun að fjölskyldur fatlaðra barna fá ekki endurnýjaða samninga sína um þjónustu. Það hefur komið þar fram að tólf fjölskyldur fatlaðra fá ekki nýja samninga um stuðningsfjölskyldur sem er afar mikilvægur hlekkur í þjónustukeðju þeirra og getur í raun og veru skipt sköpum fyrir þær fjölskyldur sem í hlut eiga og tryggt það að fötluð börn geti búið heima hjá sér. Lögin um málefni fatlaðra eru nokkuð afdráttarlaus hvað þetta atriði snertir því í 21., 22. og 23. gr. laga um málefni fatlaðra er réttur fjölskyldna fatlaðra barna áréttaður og tryggður, um að þau eigi m.a. rétt á stuðningsfjölskyldum.

Nú ber svo við að svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra upplýsir að ráðstöfunarféð sem svæðisskrifstofan hefur í þessu skyni sé uppurið og eru nú bara liðnir tveir mánuðir af árinu. Ég hef því áhuga á því að heyra viðbrögð hæstv. félagsmálaráðherra, hvernig ráðherrann hyggst bregðast við þessari stöðu og hvernig hann hyggst tryggja að fjárskortur komi ekki í veg fyrir að réttur sé brotinn á fjölskyldum fatlaðra barna.