135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[15:23]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni svo að við sem sjáum til þess að ráðuneytið reki sig innan ramma fjárlaga verðum að skoða málin í heild og líka út frá þeirri stöðu sem er í rekstri svæðisskrifstofunnar hverju sinni. Umræddur vandi sem má rekja til upphafs árs 2007 kom einmitt til vegna þess að svæðisskrifstofan fór 50% fram úr þeim heimildum sem hún hafði til þess að veita þjónustu vegna stuðningsfjölskyldna og við það erum við að glíma núna.

Síðan er alveg ljóst að við stöndum líka frammi fyrir auknum rekstrarvanda hjá svæðisskrifstofum sem þarf að taka á sérstaklega vegna þess átaks sem við erum að gera hjá Greiningarstöð ríkisins og BUGL því að þegar við förum í fleiri greiningar, eins og verið er að gera, þá kallar það á aukna stoðþjónustu. Það er einmitt það sem við þurfum að skoða sérstaklega því að það mun koma fram í aukinni þörf fyrir ýmiss konar stoðþjónustu, liðveislu, skammtímavistun og þjónustu í skólakerfinu í rekstri svæðisskrifstofunnar. (Forseti hringir.) Það þurfum við að sjá í framhaldi af því að við erum að fara í aukna greiningu á Greiningarstöðinni og átaki sem þar hefur verið síðan síðastliðið sumar.