135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin sýnir of litla ábyrgð í efnahagsmálum og hefur litla meðvitund um það sem er að gerast. Það er almenningur í landinu og atvinnulífið sem mun taka á sig byrðarnar af því með háum vöxtum og verðbólgu. Það má líka segja að sporin hræði. Sömu öfl voru hér við völd 1991–1995 og hvernig fór þá? Jú, þegar þau fóru frá var efnahagsvandi hér og tuttugasti hver vinnufær maður var atvinnulaus þannig að sporin hræða.

Við sjáum nú að landsframleiðslan á Íslandi hefur aukist um 30% frá aldamótum. Hvar stæðum við í dag ef hin mikla uppbygging atvinnulífs hefði ekki átt sér stað, eins og vinstri grænir hafa ekki viljað með íhaldssemi sinni og margoft hefur komið fram.

Fólki á Austurlandi fækkar um 9%, það sagði hv. þm. Atli Gíslason áðan. Enginn fyrirvari var gerður við þá tölu. Ég vil halda því á lofti að mér finnst afar líklegt að inni í þeirri tölu sé brottflutt fólk sem vann við uppbyggingu álvers og virkjunar á Austurlandi. Mér sýnist að talan innihaldi þá líka. Ég vara því við því að menn haldi þeirri tölu á lofti.

Varðandi grein hv. þm. Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar þá kom hún eins og frískur andvari inn í umræðuna af því það var alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa ekki viljað tala um þennan efnahagsvanda sem við erum í núna. Stjórnarandstaðan hefur reynt að vekja ríkisstjórnina en núna koma tveir nýir þingmenn hv. inn í hana og þeir tala um yfirvofandi hættu. Þeir vilja að ríkisstjórnin fari í miklu meira samstarf við fjármálamarkaðinn til þess að leiðrétta þessa stöðu ef hægt er.

Þeir tala reyndar um að Íbúðalánasjóður eigi að draga sig út af markaðnum. Við framsóknarmenn erum ekki sammála því. Við viljum styðja áframhaldandi veru Íbúðalánasjóðs og við teljum að ef hann væri ekki nú til staðar væri algert alkul á markaðnum. Við sjáum þegar við skoðum tölurnar að Íbúðalánasjóður lánaði 4,5 milljarða til húsnæðiskaupa í janúar á þessu ári á meðan bankarnir lánuðu 850 millj. kr. Það má ekki verða þannig að Íbúðalánasjóður verði settur út til bankanna til þess að freista þess að bjarga þeim úr þeirri stöðu sem þeir að vissu leyti hafa komið sér í sjálfir.

Ríkisstjórnin hefur ekkert unnið með Seðlabankanum. Ríkisstjórnin vinnur í öfuga átt við Seðlabankann. Nú í síðustu fjárlögum voru útgjöld aukin um 20% á milli fjárlaga. Á sama tíma vissum við að við værum að ganga til í kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Þeir eru farnir fram hjá okkur og sem betur fer náðist niðurstaða í því. En það á eftir að gera kjarasamninga við opinbera starfsmenn og þar mun ríkissjóður þurfa að koma að. Það eru því viðsjárverðir tímar fram undan, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin virðist ekki taka á þeim vanda nema síður sé.